Körfubolti

Fær yfir fjóra milljarða vegna mynda af slysstað

Sindri Sverrisson skrifar
Vanessa Bryant hefur sagst fá kvíðaköst við tilhugsunina um að myndir séu til af látnum eiginmanni hennar og dóttur, sem fulltrúar lögreglu og slökkviliðs dreifðu.
Vanessa Bryant hefur sagst fá kvíðaköst við tilhugsunina um að myndir séu til af látnum eiginmanni hennar og dóttur, sem fulltrúar lögreglu og slökkviliðs dreifðu. Getty

Vanessa Bryant, ekkja körfuboltamannsins Kobe Bryant, hefur komist að samkomulagi við Los Angeles sýslu um bætur vegna mynda sem fóru í dreifingu, af líkamsleifum Kobe, dóttur þeirra og sjö öðrum eftir þyrluslysið fyrir þremur árum.

Vanessu höfðu verið dæmdar 16 milljónir Bandaríkjadala í bætur en hefur nú náð samkomulagi vegna þeirra krafna sem enn voru útistandandi og nemur heildarupphæðin 28,85 milljónum dala, eða sem samsvarar rúmlega 4,1 milljarði króna.

Samkvæmt frétt ESPN var myndum af slysstað deilt á meðal fulltrúa lögreglu og slökkviliðs í Los Angeles, þar á meðal sumra sem voru að spila tölvuleiki og annarra sem voru á verðlaunahófi. Makar sumra þeirra sáu myndirnar og í einu tilviki sá barþjónn myndirnar á knæpu þar sem lögreglufulltrúi var staddur.

Við réttarhöldin í ágúst í fyrra sagði Vanessa að fréttir af myndunum hefðu aukið á sorg hennar, mánuði eftir slysið skelfilega, og að hún hefði fengið kvíðaköst við tilhugsunina um að myndirnar væru enn til.

Kobe Bryant og dóttirin Gianna voru á leið ásamt sjö öðrum í körfuboltaleik sem Gianna átti að spila þegar þyrla þeirra hrapaði í Calabas, vestur af Los Angeles, 26. janúar 2020. Öll níu sem voru um borð létust.

Chris Chester, sem átti eiginkonu og dóttur sem létust í slysinu, fær 19,95 milljónir Bandaríkjadala í bætur eða tæplega 2,9 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×