Handbolti

„Íþróttamenn segja ekki frá þessu og leita sér ekki hjálpar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson átti frábær innkomu í íslenska landsliðið á HM þegar hann fékk loksins tækifærið hjá þjálfaranum.
Kristján Örn Kristjánsson átti frábær innkomu í íslenska landsliðið á HM þegar hann fékk loksins tækifærið hjá þjálfaranum. Vísir/Hulda Margrét

Það vakti athygli á dögunum þegar leikmaður íslenska handboltalandsliðsins, Kristján Örn Kristjánsson leikmaður PAUC í Frakklandi, greindi frá því að hann yrði að taka sér frí frá æfingum og keppni vegna kulnunar. Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur hjá Háskólanum í Reykjavík ræddi við Guðjón Guðmundsson um þessa hlið íþróttanna.

„Í fyrsta lagi er kulnun frekar illa skilgreint hugtak að fræðimenn eru ekki sammála um hvað þetta er og hvernig þetta liggur. Við vitum því ekkert um tíðnina,“ sagði Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor í sálfræði og deildarforseti Íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík.

Svipað og hjá venjulegu fólki

„Það sem er líklegt að þarna liggi að baki er líka þunglyndi, kvíði og jú mögulega kulnun. Þetta er svipað algengt og hjá venjulegu fólki en hins vegar tala íþróttamenn ekki um þetta. Þeir segja ekki frá þessu og leita sér ekki hjálpar. Allar rannsóknir hafa sýnt það,“ sagði Hafrún.

Dr. Hafrún Kristjánsdóttir.

„Það kann að vera að það sé enginn breyting á þessu heldur sem betur fer eru íþróttamenn tilbúnir að segja núna. Hey, það er ekkert að hnénu á mér, mér líður bara illa,“ sagði Hafrún.

Gaupi velti því upp hvort þetta væri feimnismál hjá íþróttamönnum.

„Já þetta er það og sérstaklega þegar kemur að þunglyndi því við höfum séð það í íslenskum rannsóknum. Þegar það kemur þunglyndi þá vilja íþróttamenn ekki segja frá og þeir tala um það að viðhorfið gagnvart andlega vikum íþróttamönnum sé bara þannig að það sé erfitt að koma fram,“ sagði Hafrún.

Ekki góður ferðafélagi

„Þetta er ekki góður ferðafélagi,“ skaut Guðjón Guðmundsson inn í.

„Nei því ef manni líður illa andlega þá hefur það áhrif á ansi marga þætti. Ég held að allir sem fjalla um þetta og koma að íþróttamönnunum þurfi að taka þetta svolítið til sín hversu erfitt það hefur verið fyrir íþróttamenn að koma fram, segja frá þessu og fá hjálp,“ sagði Hafrún.

„Það er alltaf fyrsta skrefið að viðurkenna vandann. Svo þurfum við bara að skoða það. Það skiptir engu máli hvort það sé kulnun, þunglyndi, kvíði. Viðkomandi líður bara illa, þarf að fá hjálp og við skoðum hvernig það er. Þá ættum við frekar að hrósa einstaklingi sem kemur fram og segir frá þessu,“ sagði Hafrún.

„Það verður að gerast til að íþróttamenn líði ekki mjög illa eftir að ferlinum lýkur sem við sjáum að er oft,“ sagði Hafrún.

Mikkel Hansen varð heimsmeistari með Dönum á dögunum en fór síðan í frí vegna kulnunnar.Getty/Kolektiff Images

„Mikkel Hansen, einn besti handboltamaður heims, er í kulnun. Hann þurfti að gera það opinbert vegna mikillar pressu eða hvað,“ spurði Guðjón.

Áhættuþættir í þeirra umhverfi

„Íþróttamenn hafa þætti í sínu umhverfi eins og ofboðslega mikla pressu. Það er alltaf verið að meta frammistöðu þeirra sem er ekki hjá öðru fólki. Öll augu eru á þeim, það er oft samskiptavandi á milli þjálfara, íþróttamanna og stjórnar. Það eru áhættuþættir í þeirra umhverfi sem geta ýtt undir andlega vanlíðan,“ sagði Hafrún.

„Á sama tíma eru líka þættir eins og þeir hreyfa sig mikið og slíkt sem hjálpar til við að halda þessu niðri. Það eru þættir í umhverfi íþróttamanna sem eru óhjálplegir þegar kemur að andlegum þáttum,“ sagði Hafrún.

Háskólinn í Reykjavík hefur skoðað vel þessi mál hér á Íslandi.

„Við höfum skoðað þetta hjá atvinnumönnum, hjá handbolta-, fótbolta- og körfuboltafólki og reynda líka einstaklingsíþróttamönnum. Við erum að sjá að tíðnin er svipuð og hjá almenningi á svipuðum aldri. Við miðum svolítið við háskólastúdenta því þetta fólk er oft sirka á þeim aldri,“ sagði Hafrún.

Ólíklegri en annað fólk

„Við sjáum líka að íþróttamenn eru miklu ólíklegri til að viðurkenna vandann fyrir öðru fólki, sérstaklega þegar kemur að þunglyndi, heldur en aðrir,“ sagði Hafrún.

„En hvað er til ráða? Nú hlýtur að vera erfitt að eiga við þetta og batinn getur tekið langan tíma,“ sagði Guðjón.

Ætti að koma hratt og örugglega til baka

„Sem betur fer eru til, sérstaklega þegar kemur að þunglyndi og kvíða, mjög öflugar meðferðir. Aðgengið að þessum meðferðum er ekkert sérstaklega gott. Ef íþróttafagmaðurinn fær rétta hjálp þá ætti hann að koma hratt og örugglega til baka. Auðvitað er það mjög einstaklingsbundið hvar vandinn liggur,“ sagði Hafrún.

Það má horfa á allt viðtalið við hana hér fyrir neðan.

Klippa: Hafrún Kristjánsdóttir um kulnun íþróttafólks



Fleiri fréttir

Sjá meira


×