Handbolti

Björgvin Páll með flest varin skot í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var frábær í marki Valsmanna í gær. Varði 20 skot, skoraði 1 mark og gaf 5 stoðsendingar samkvæmt opinberri tölfræði EHF.
Björgvin Páll Gústavsson var frábær í marki Valsmanna í gær. Varði 20 skot, skoraði 1 mark og gaf 5 stoðsendingar samkvæmt opinberri tölfræði EHF. Vísir/Diego

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson átti sannkallaðan stórleik á Hlíðarenda í gærkvöldi þegar Valsmenn tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Björgvin Páll varði yfir tuttugu skot í níu marka sigri á Pays d'Aix og skoraði einnig eitt mark til að kóróna frammistöðu sína. Hann hefur nú skorað fimm mörk í keppninni þar af fjögur þeirra í þremur leikjum Valsmanna í febrúar.

Auk þess að fá skráð á sig tuttugu skot í opinberri tölfræði keppninnar þá var Björgvin einnig með fimm stoðsendingar í leiknum. Hann átti því þátt í sex mörkum Valsliðsins í leiknum.

Þessi frábæra frammistaða og þessi tuttugu vörðu skot skila honum líka í efsta sætið yfir flest varin skot í allri Evrópudeildinni. Samkvæmt opinberri tölfræði mótsins þá hefur Björgvin varið 113 skot í leikjunum níu eða 12,6 skot í leik.

Björgvin hefur varið átta skotum meira en næsti maður sem er Niklas Kraft hjá sænska liðinu Ystad. Þeir tveir eru þeir einu sem hafa varið yfir hundrað skot í keppninni til þessa.

Björgvin er jafnframt í fjórða sætið yfir flest varin víti en hann hefur varið sjö víti í þessum níu leikjum Valsliðsins.

  • Flest varin skot markvarða í Evrópudeildinni:
  • 1. Björgvin Páll Gústavsson, Val 113/7
  • 2. Niklas Kraft, Ystad 105/7
  • 3. Rangel da Rosa, Granollers 98/5
  • 4. Christoffer Hoffmann Bonde, Skjern 95/11
  • 5. Golub Doknic, Alpla HC Hard 89/6
  • 6. Arian Andó, Balatonfüredi KSE 83/4



Fleiri fréttir

Sjá meira


×