Körfubolti

Valskonur mörðu Fjölni og Blikar gerðu góða ferð í Breiðholtið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kiana Johnson var stigahæst í liði Vals í kvöld.
Kiana Johnson var stigahæst í liði Vals í kvöld. Vísir / Hulda Margrét

Valskonur unnu nauman fimm stiga sigur er liðið tók á móti Fjölni í Subway-deild kvenna í kvöld, 109-104, og í Breiðholtinu vann Breiðablik öruggan 15 stiga sigur gegn heimakonum í ÍR, 64-79.

Eftir jafnan fyrsta leikhluta þar sem staðan var 23-23 að honum loknum höfðu Valskonur góð tök á leiknum er liðið tók á móti Fjölni. Heimakonur höfðu tólf stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks og liðið náði mest 24 stiga forskoti í þriðja leikhluta.

Það leit því allt út fyrir að Valur myndi vinna öruggan sigur, en gestirnir gáfust ekki upp og minnkuðu forskot heimakvenna jafnt og þétt. Fjölniskonur náðu að minnka muninn niður í eitt stig í stöðunni 99-98, en nær komust þær ekki og Valur vann að lokum nauman fimm stiga sigur, 109-104.

Kiana Johnson var stigahæst í liði Vals í kvöld með 28 stig, en Brittany Dinkins dró vagnin fyrir Fjölniskonur og skoraði hvorki meira né minna en 46 stig fyrir liðið.

Þetta var elleftir deildarsigur Vals í röð og liðið situr í öðru sæti deildarinnar með 34 stig eftir 20 leiki, tveimur stigum minna en topplið Keflavíkur. Fjölniskonur sitja hins vegar í sjötta sæti með tíu stig.

Þá vann Breiðablik öruggan 15 stiga sigur gegn botnliði ÍR í breiðholtinu, 64-79. Gestirnir höfðu góð tök á leiknum frá fyrstu mínútu og sigur þeirra í raun aldrei í hættu.

Breiðablik situr í sjöunda og næst neðsta sæti deildarinnar með sex stig eftir 19 leiki, fjórum stigum meira en ÍR sem situr á botninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×