Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í mismunandi störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég er algjör reglumanneskja og þrífst best í slavískri rútínu og vakna um það bil klukkan hálf sex alla daga, því miður oft um helgar líka ef ég hef ekki farið út að skemmta mér kvöldið áður sem fyrir miðaldra húsfreyju gerist nú til dags jafn oft og sólmyrkvi.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég fer lóðrétt í ræktina sex morgna vikunnar, yfirleitt að lyfta. Ég hef lyft lóðum samviskusamlega í 24 ár, og það er minn staður og mín stund.
Lyftingar hafa kennt mér þrautseigju, sjálfsaga, hvernig ég díla við mótlæti og ýta sjálfri mér útfyrir þægindarammann.
Ég fer alltaf inn í daginn með sjálfstraust í bunkum eftir að hafa slitið járn af gólfi um morguninn.“
Ef þú værir ofurhetja í kvikmynd eða teiknimyndasögu – hver værir þú þá?
Ég hef alltaf verið mikil Lara Croft aðdáandi. Hef meira að segja farið sem hún í grímupartý.
Fannst hún sjúklega svöl þegar tölvuleikurinn kom út árið 1996 og ég var að vinna í Skífunni. Loksins var kona ofurhetja í tölvuleik.
Ég var greinilega strax 17 ára komin með blæti fyrir vöðvuðum sterkum konum.

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég er með mína eigin sálfræðistofu hér í Kaupmannahöfn þar sem ég tek á móti skjólstæðingum og er með fulla dagskrá alla daga.
Svo er mikil eftirspurn eftir fyrirlestrum um streitu, mataræði og heilsuvenjur svo ég er mikið að gera slíkt í gegnum fjarfund, og á staðnum þegar ég er á Íslandi.
Í samstarfi við Andreu Jónsdóttur erum við að setja á laggirnar rafrænt námskeið til að hjálpa fólki öðlast heilbrigt samband við mat og hreyfingu.
Svo er ég alltaf að taka viðtöl við áhugavert fólk fyrir hlaðvarpið mitt sem heitir Heilsuvarpið.
Þess á milli hamra ég allskonar pistla um mataræði, hreyfingu, sálfræði og stundum smá rant á Facebook og Instagram.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Úff... ég er hræðileg þarna.
Ég er alveg viss að ég sé með bullandi ADHD, því ég fer bara úr einu í annað verkefni og er með 10-15 glugga opna í Chrome og að meðaltali svona tólf WORD skjöl opin og er að vinna í þessu öllu.
Allt mjög kaótískt.
Ég þyrfti að tileinka mér alla tæknina sem ég er alltaf að hlusta á í hlaðvörpum. En það hentar mér best að skrifa pistla á morgnana því þá er ég skörp í hugsun, og svara tölvupóstum og skilaboðum sem krefjast minni heilaorku seinnipart dags.
Eins hjálpar að fara út úr húsinu því annars fer ég bara í að raða í uppþvottavélina eða para saman samstæða sokka.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég er A-manneskja ofan í görn, og hef alltaf verið mjög kvöldsvæf, og fer yfirleitt að sofa uppúr klukkan níu, í síðasta lagi um hálf tíu.
Ég er líka algjör svefnperri, og á allskonar græjur eins og heilsukodda, púða milli hnjánna, sumarsæng og vetrarsæng. Ég passa mjög uppá rútínuna mína fyrir svefninn. Dimma ljósin, hafa nógu kalt í svefnherberginu, ekkert koffín eftir hádegi og enginn skjár tveim tímum fyrir svefninn og gúlla magnesíum eftir tannburstun.
Mér finnst mjög gaman að fara að sofa. Maðurinn minn gerir stundum grín að mér að ég brosi út að eyrum þegar að ég leggst á heilsukoddann minn með góða bók í hönd í lok dags.“