Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
Í kringum korter í sjö, enda nauðsynlegt að fara snemma af stað til að sleppa við umferðina ofan úr Mosó.
Það er kannski ekkert sérlega snjallt að búa í 270 og vinna í 101, en nálægðin við fjöllin bætir það upp.
Alltaf er endurnærandi að koma í sveitina í lok dags og lenda við rætur fjallsins fagra, Helgafells.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég fæ mér ekki lengur morgunmat á virkum dögum til að spara tíma. Fyrsti kaffibollinn er því ekki fyrr en á kontórnum, en þá er líka tekið á því. Í bílnum er Storytel staðalbúnaður. Núna eru það Passíusálmarnir eftir Einar Kárason. Framhald af snilldarbókinni um Storm, en ég missti af þessum bókum þegar þær komu út á sínum tíma. Heppinn að hnjóta um þær núna. Einar er náttúrulega ótrúlega snjall sögumaður.
Um helgar er dekur með mokka úr Bialetti.“
Getur þú nefnt atriði í eldamennsku sem þínir nánustu myndu segja að þú værir a) mjög góður í b) alveg vonlaus í?
„Ég þyki gera sérdeilis góðan plokkfisk og vera lunkinn við stóra pottrétti. Ég er hins vegar frekar vonlaus í einhverju fíneríi. Nema náttúrlega Crème Brûlée, sem er minn „signature“ eftirréttur.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Við erum nýbúin að stofna Sjálfbært Ísland, sem mun móta stefnu um sjálfbæra þróun. Þetta felur í sér kröftugt samstarf allra ráðuneytanna, sem og við Alþingi, sveitarfélögin, aðila vinnumarkaðarins, og fjölda frjálsra félagasamtaka. Þar sem sjálfbærni er eitt aðaláhugamálið, er þetta mikill lukkupottur.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Allt fer í dagbókina. Ef það fer ekki þar inn, þá er hending ef það gerist. Síðan eru hefðbundnir verkefnalistar, en ég reyni að hafa allt eins einfalt og kostur.
Sérstaklega þar sem minnið fer ekki batnandi með árunum og mikilvægt er að halda fókus á það mikilvæga.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Yfirleitt of seint, en reyni að ná því um ellefu leytið. Ég þarf góðan nætursvefn og reyni að sinna honum af samviskusemi. Takist það ekki er fátt sem góð síðdegiskría getur ekki bjargað, sérstaklega ef kvöldið býður upp á leikhús eða kóræfingu.“