Viðskipti innlent

Sekt Fossa stendur vegna bónusa í búningi arðgreiðslna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.
Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.

Fjármálafyrirtækið Fossar markaðir braut lög þegar fyrirtækið greiddi út of háa kaupauka til starfsmanna sinna og kallaði þá ranglega arðgreiðslur. Þetta er niðurstaða Fjármálaeftirlitsins, héraðsdóms og nú Landsréttar sem kvað upp dóm sinn í dag.

Málið má rekja til greiðslna Fossa til svokallaðra B-hluthafa í félaginu. Greiðslurnar námu allt frárúmlega fimmtíu prósentum af heildarlaunum starfsmanna upp í yfir tvö hundruð prósent. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki mega kaupaukar ekki nema hærri fjárhæð en 25 prósent af árslaunum.

Fjármálaeftirlitið, sem í dag hefur verið sameinað Seðlabanka Íslands, sektaði Fossa um 10,5 milljónir króna vegna brota á lögum. Fossar höfðuðu mál gegn Seðlabanka Íslands þar sem fyrirtækið vildi ekki greiða sektina.

Eftirlitið taldi að í arðgreiðslum til starfsmannanna hafi falist endurgjald fyrir starf í þágu Fossa og þær teldust þar með til kaupauka.

„Engu skipti í þessu sambandi þótt téður kaupauki hafi verið klæddur í búning arðgreiðslna af hlutum í B-flokki,“ sagði í niðurstöðu fjármálaeftirlitsins. Héraðsdómur Reykjavíkur var sama sinnis þegar dómur var kveðinn upp í málinu í október 2021.

Í dómi héraðsdóms kom fram að á tímabilinu 2016 til 2019 hefðu arðgreiðslur þessara starfsmanna numið um 345 milljónum króna. Á sama tíma voru launagreiðslur til sömu einstaklinga rúmar 300 milljónir króna.

Fossar héldu því áfram fram að greiðslurnar hefðu verið arðgreiðslur og áfrýjuðu málinu til Landsréttar sem kvað upp dóm sinn í dag.

Fyrr í vikunni var tilkynnt um að VÍS og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka hefðu ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum á grundvelli viljayfirlýsingar um sameiningu félaganna. Gert ráð fyrir að hluthafar Fossa fái 260 milljón nýja hluti í VÍS fyrir hlutabréf sín, sem nemur 13,3 prósentum af hlutafé tryggingafélagsins.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×