Handbolti

Guðmundur Hólmar á leið í Hauka

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Hólmar Helgason hefur verið sannkallaður lykilmaður í liði Selfoss frá því að hann sneri heim úr atvinnumennsku.
Guðmundur Hólmar Helgason hefur verið sannkallaður lykilmaður í liði Selfoss frá því að hann sneri heim úr atvinnumennsku. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Handboltamaðurinn öflugi Guðmundur Hólmar Helgason mun að öllum líkindum spila með Haukum frá og með næstu leiktíð.

Þetta herma heimildir Vísis og munu samningaviðræður þess efnis vera langt komnar eða því sem næst í höfn.

Guðmundur Hólmar hefur verið leikmaður Selfoss frá því að hann sneri heim úr atvinnumennsku sumarið 2020. Hann skrifaði á þeim tíma undir samning til þriggja ára við Selfoss, sem var þáverandi Íslandsmeistari.

Akureyringurinn náði ekki að klára fyrsta tímabilið með Selfossi þar sem að hann sleit hásin í lok febrúar 2021. Á síðasta tímabili skoraði Guðmundur svo 55 mörk í 17 deildarleikjum og átti síðan stóran þátt í að koma Selfossi í undanúrslit Olís-deildarinnar með því að slá út FH.

Í vetur er Guðmundur Hólmar, sem er lykilmaður í vörn og sókn hjá Selfossi, svo næstmarkahæstur hjá liðinu með 66 mörk í 14 leikjum, og með næsthæstu heildareinkunn liðsins hjá HB Statz eða 7. Hann bætir væntanlega við mörkum í Vestmannaeyjum í kvöld þegar Selfyssingar mæta ÍBV.

Hjá Haukum spilar góður vinur og fyrrverandi liðsfélagi Guðmundar hjá Val og Akureyri, Geir Guðmundsson. Guðmundur, sem er þrítugur og hefur leikið 25 A-landsleiki, hefur einnig leikið með Cesson Rennes í Frakklandi og West Wien í Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×