Umræðan

Meg­um ekki hika í ork­u­skipt­um

Helgi Vífill Júlíusson skrifar

Appelsínugular veðurviðvaranir og umtalsverð hlýindi í febrúar á Íslandi eru þörf áminning um hvað hlýnun jarðar – sem er af mannavöldum – hefur í för með sér.  Hlýnun jarðar veldur meðal annars öfgum í veðurfari og breytir lífsskilyrðum í sjó sem gæti leikið sjávarútveg, eina af okkar mikilvægustu atvinnugreinum, grátt. Aðgerða er þörf.

Við eigum möguleika á að verða fyrsta landið til að nota eingöngu endurnýjanlega orku. Því miður hefur stjórnmálafólk og embættismannakerfið sofið á verðinum. Raforkukerfið er uppselt og keyrt við þanmörk. Það má rekja til stöðnunar í málaflokknum í um áratug. Hvernig eiga orkuskiptin – að hætta notkun á olíu og nýta endurnýjanlega orkugjafa – að fara fram við þessar aðstæður?

Á heimsvísu reiða þjóðir sig mestmegnis á óendurnýjanlega orkugjafa. Það skerpti vel á sérstöðu Ísland í umhverfisvænni orkuframleiðslu þegar Úkraínustríðið hófst. Lönd í Evrópu og Asíu urðu að hefja aftur kolaframleiðslu í ljósi orkuskorts. Fjöldi ríkisstjórna niðurgreiðir meira að segja mengandi orkuframleiðslu til að aðstoða íbúa við að greiða reikninga.

Orð og efndir hafa ekki farið saman.

Það er nokkuð langt um liðið síðan Ísland ritaði undir Parísarsamkomulagið eða átta ár. Engu að síður hafa stjórnmálin ekki lagt allt kapp á að tryggja að næg orka verði fyrir orkuskiptin. Orð og efndir hafa ekki farið saman.

Um er að ræða samkomulag 195 þjóða um að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum innan við tveimur gráðum miðað við hitastig fyrir iðnvæðingu. Til að það geti orðið þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eins hratt og mögulegt er og ná hnattrænu kolefnishlutleysi upp úr 2050.

Vitundarvakning er að eiga sér stað varðandi umhverfisvæna orkuframleiðslu. Það er má ekki einungis rekja til loftlagsbaráttunnar heldur einnig til orkukrísunnar sem stríðið í Úkraínu hrinti af stað. Uppi eru áform, svo sem í Bretlandi, Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum, um að greiða götu fyrir umhverfisvæna orkuframleiðslu. Vonandi mun svipað eiga sér stað á Íslandi.

Frá því að hugmynd að virkjun fæðist og hægt er að veita rafmagni á orkukerfið geta liðið átta til 13 ár, ef marka má skýrslu Viðskiptaráðs um orkumál. Það liggur í augum uppi að það þarf að stytta ferlið.

Það þarf ríflega að tvöfalda raforkuframleiðslu hérlendis til að geta framleitt næga orku til að hætta allri olíunotkun og mætt þörf sem fylgir fólksfjölgun og hagvexti. 

Án flýtimeðferðar mun uppbyggingin taka of langan tíma. Við erum orðin of sein; við munu ekki ná loftlagsmarkmiðum okkar fyrir árið 2030. Látum það ekki gerast að við missum líka af þeim markmiðum sem sett voru fyrir árið 2040.

Þegar verkfall félagsmanna Eflingar sem sinna olíudreifingu hefst í dag munum við finna með áþreifanlegum hætti hve ríkan þátt olían spilar í lífi okkar.

Ísland notar um milljón tonn af olíu af ári til að knýja hagkerfið. Þegar verkfall félagsmanna Eflingar sem sinna olíudreifingu hefst í dag munum við finna með áþreifanlegum hætti hve ríkan þátt olían spilar í lífi okkar. Um 15 prósent af öllum vöruinnflutningi í fyrra var vegna eldsneytis og olíu. Þessu þarf að breyta.

Í þessu samhengi er ekki verið að ræða um að virkja til að knýja áfram nýja þörf. Það þarf að skipta út vélum sem krefjast olíu og nota þess í stað umhverfisvæna orku.

Til að svo megi verða þarf að afla hennar. Framleiða umhverfisvæna orku með hagkvæmum hætti í stað þess að kaupa mengandi orkugjafa dýru verði erlendis frá.

Að auki þarf að horfa til fólksfjölgunar og hagvexti. Af þeim sökum mun orkuþörfin fara vaxandi. 

Jafnframt eru mikil tækifæri fyrir Ísland að bjóða fyrirtækjum upp á umhverfisvæna orku í sinni starfsemi. Án þess að ganga of nærri náttúrunni gæti Ísland boðið áhugaverðum nýsköpunarfyrirtækjum græna orku og skapað miklar gjaldeyristekjur.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að því að hagsæld okkar helst í hendur við orkuframleiðsluna. Ef miðað er við sviðmyndir um aukna raforkuvinnslu hér á landi er reiknað með því að landsframleiðsla á hvern íbúa verði með því mesta sem þekkist í heiminum árið 2060. Aftur á móti ef gert er ráð fyrir að framleiðslan verði ekki aukin munum við skipa sess á meðal landa í milli- og lágtekjuhóp, samkvæmt skýrslunni Orkulaus/nir sem Viðskiptaráð útbjó.

Verkfræðistofan Efla segir að efnahagslegur ávinningur Íslands af orkuskiptunum sem eru framundan geti numið 1.400 milljörðum króna fram til ársins 2060. Heildarumfang fjárfestinga vegna orkuskiptanna getur numið 800 milljörðum króna.

Aðgerðarleysi í orkuuppbyggingu getur leitt til þess að lífsgæði hér á landi fari frá því að vera ein þau mestu í heimi í fremur slök.

Aðgerðarleysi í orkuuppbyggingu getur leitt til þess að lífsgæði hér á landi fari frá því að vera ein þau mestu í heimi í fremur slök. Það mun bitna á okkar eigin skinni og afkomenda okkar. Að auki erum við ekki að nýta okkur getu landsins til að framleiða umhverfisvæna orku til að stemma stigu við loftlagsvánni.

Það liggur í augum uppi að hið opinbera – sem stendur undir um 93 prósenta af orkuframleiðslunni – á ekki tök á að ráðast nauðsynlega uppbyggingu á orkuinnviðum. Búa þarf um hnútana svo að einkafjármagn, meðal annars erlendis frá, geti lagt hönd á plóg við að auka raforkuframleiðsuna. Það er eina leiðin.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.