Innherji

Seðl­a­bank­a­stjór­i átti ekki von á sjálfs­mark­i þeg­ar hann gaf upp bolt­ann

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Vísir/vilhelm

Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjóri skutu fast á aðila vinnumarkaðarins og hið opinbera fyrir að haga sér með óábyrgum hætti á opnum fundi í morgun. Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri sagði að þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gaf upp boltann í október síðastliðnum hafi Seðlabankinn ekki gert ráð fyrir þeir sem tækju við knettinum myndi spila „sóló“. Við það greip Ásgeir orðið og stakk inn: „Eða að þeir myndu skora sjálfsmark!“

Rannveig sagði að aðhald hins opinbera væri of lítið og nýlegir kjarasamningar of dýrir. „Þeir eru greinilega í öðrum veruleika,“ sagði hún og nefndi að óttast væri að svo „dýrir kjarasamningar“ í mikilli verðbólgu myndi leiða af sér enn meiri verðbólgu. Ásgeir sagði að það Íslendingar hafi séð það áður.

Fram kom í Peningamálum að svo virðist sem fyrirtæki hleypi kostnaðarhækkunum í auknum mæli út í verðlag.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir hafi hækkað um 0,5 prósentur í 6,5 prósent. Nefndin telur líklegt að auka þurfi aðhaldið enn frekar á næstunni til þess að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.

Verðbólga jókst í janúar og mældist 9,9 prósent en undirliggjandi verðbólga hélst óbreytt í sjö prósent. Þótt tekið hafi að hægja á húsnæðismarkaði og alþjóðleg verðbólga hafi minnkað lítillega er verðbólguþrýstingur enn mikill og verðhækkanir á breiðum grunni.

„Verðbólguhorfur hafa versnað frá síðasta fundi nefndarinnar og þótt verðbólga hafi líklega náð hámarki tekur lengri tíma að ná henni niður í verðbólgumarkmið bankans en áður var talið. Lakari horfur skýrast einkum af því að nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði fela í sér töluvert meiri launahækkanir en þá var gert ráð fyrir. Einnig hefur gengi krónunnar lækkað og útlit er fyrir meiri framleiðsluspennu á spátímanum. Við þetta bætist að útlit er fyrir að aðhald fjárlaga verði minna en gert var ráð fyrir í nóvemberspá bankans þrátt fyrir að dragi úr hallarekstri ríkissjóðs í ár. Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi,“ segir í yfirlýsingu Peningastefnunefndar.

Ásgeir sagði opnum fundi á morgun, þegar ákvörðun var kynnt, að framsýn leiðsögn bankans hafi breyst. „Það hefur allt lagst gegn okkur frá síðasta fundi,“ sagði hann og nefndi að kjarasamningar hafi verið dýrari en ráð var gert og minna aðhald í ríkisfjármálum. Verðbólga hafi farið vaxandi.

Seðlabankinn dró stutta stráið.

„Seðlabankinn dró stutta stráið,“ sagði Ásgeir. „Við verðum að gera eitthvað í málinu til að ná niður verðbólgu.“

Í Peningamálum segir enn fremur: „Við bætist að ekki er búið að ljúka öllum kjarasamningum og því gætu laun hækkað enn meira en nú er gert ráð fyrir. Að sama skapi gætu launahækkanir á seinni hluta spátímans verið vanmetnar í grunnspánni verði samið á svipuðum nótum og nú þegar samningstíma nýrra samninga lýkur eftir ár.“

Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri.Mynd/Forsætisráðuneytið

Á fundinum var spurningu beint til Ásgeir þar sem rifjað var upp að hann hafi sagt að kjarasamningarnir væru jákvæðir fyrir fjármálastöðugleika. Hann samsinnti því en sagði að á þessum fundi væri verið að ræða um verðstöðugleika.

Hann sagði að núverandi kjarasamningar séu til skamms tíma. Aðilar vinnumarkaðarins semji um laun að nýju í haust. Það gefi Peningastefnunefnd „glugga“ til að ná niður verðbólgu þótt hún verði komin í markmið sem sé 2,5 prósent á þeim tíma.

Það hefur allt lagst gegn okkur frá síðasta fundi.

„Verðbólga er versti óvinur launafólks. Hún kemur verst niður á þeim sem hafa lægstar tekjur,“ sagði Ásgeir. Markmið þeirra sem láti sig varða hagsmuni launafólks og þeirra lægst launuðu, ætti að vera að ná niður verðbólgu.

„Það er ekki nægjanlegt að berjast fyrir krónutöluhækkunum. Það sem skiptir máli er aukinn kaupmáttur. Hann er lykilatriði,“ sagði Ásgeir.

Ásgeir sagði að þegar verðbólga væri mikil og verðbólguvæntingar háar væri auðvelt hækka verð. Við þær aðstæður sé launahækkunum fleytt í verðlag. Tal verkalýðsfélaga um hagnað fyrirtækja hafi í því samhengi „enga þýðingu“. Hærri laun við þær aðstæður leiði til aukinnar verðbólgu. „Þess vegna er ekki nóg að semja um krónutöluhækkanir. Það þarf að huga að kaupmætti,“ sagði hann.

Nýgerðir kjarasamninga fela í sér miklar launahækkanir á sama tíma og framleiðnivöxtur er lítill sem enginn, viðskiptakjör versna, gengi krónunnar lækkar og kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði veikist, sagði í Peningamálum.

Fram kemur í Peningamálum að launavísitalan hafi hækkaði um 9,4 prósent milli ára á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Í desember voru endurnýjaðir kjarasamningar við um 80 prósent launafólks á almennum vinnumarkaði. Samningarnir taka við af fyrri samningum og gilda frá 1. nóvember 2022 til janúarloka 2024. Í megindráttum felst í þeim 33 þúsund króna almennri hækkun og 35-52 þúsund króna hækkun á kauptaxta fyrir lægri laun en 6,75 prósent hækkun á hærri laun, þó þannig að hækkunin verði ekki meiri en 66 þúsund krónur. Þá hækka laun vegna frekari breytinga á launatöflum og hagvaxtarauka er flýtt og hann greiddur út samhliða.

Við bætist að ekki er búið að ljúka öllum kjarasamningum og því gætu laun hækkað enn meira en nú er gert ráð fyrir.

„Ljóst er að þessir samningar eru bæði mun kostnaðarsamari og framhlaðnari en búist var við í síðustu grunnspá bankans og er niðurstaðan áþekk fráviksdæmi sem birt var í Peningamálum í nóvember sem gerði ráð fyrir meiri launahækkunum. Í síðustu grunnspá var áætlað að laun á vinnustund hafi hækkað um 7,8 prósent milli ársmeðaltala í fyrra og að þau hækki um 6 prósent í ár eða samtals 14,3% á þessum tveimur árum. Nú er talið að þau hafi hækkað um 8,6 prósent í fyrra og hækki um 9,4 prósent í ár eða samtals 18,8 prósent yfir þetta tveggja ára tímabil. Um þessa þróun ríkir hins vegar óvissa enda á eftir að semja við nokkra hópa launþega,“ segir í Peningamálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×