Körfubolti

Nýtt Linsanity í uppsiglingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cam Thomas hefur skorað samtals 134 stig í síðustu þremur leikjum Brooklyn Nets.
Cam Thomas hefur skorað samtals 134 stig í síðustu þremur leikjum Brooklyn Nets. getty/Al Bello

Þótt augu flestra hafi verið á LeBron James var hann ekki sá eini sem sló met í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Það gerði Cam Thomas, leikmaður Brooklyn Nets, líka.

Thomas skoraði 43 stig þegar Brooklyn laut í lægra haldi fyrir Phoenix Suns, 112-116. Hann varð þar með yngsti leikmaður í sögu NBA til að skora fjörutíu stig eða meira í þremur leikjum í röð. Gamla metið átti Allen Iverson en það hafði staðið frá vorinu 1997.

Thomas, sem er 21 og 117 daga gamall, skoraði 44 stig gegn Washington Wizards á laugardaginn, svo 47 stig gegn Los Angeles Clippers í fyrradag og loks 43 stig gegn Phoenix í nótt.

Gárungarnir eru nú byrjaðir að tala um að nýtt Linsanity-ævintýri. Frægt var þegar Jeremy Lin spratt fram á sjónarsviðið eins og skrattinn úr sauðaleggnum með New York Knicks tímabilið 2011-12 og skoraði eins og óður maður. Fram að því kunnu fáir deili á Lin.

Brooklyn skipti Kyrie Irving til Dallas Mavericks á dögunum og Thomas virðist vera tilbúinn í að taka að sér stærra hlutverk í sókninni, allavega ef marka má síðustu þrjá leiki. Fyrir þá hafði Thomas aðeins einu sinni skorað meira en 21 stig í leik á tímabilinu. Skotnýtingin í leikjunum þremur er stórgóð, eða 56 prósent.

Brooklyn valdi Thomas með 27. valrétti í nýliðavalinu 2021. Á síðasta tímabili skoraði hann 8,5 stig að meðaltali í 67 leikjum í NBA. Í vetur er hann með 9,5 stig að meðaltali í leik en sú tala á að öllum líkindum eftir að hækka verulega, allavega ef mark er takandi á frammistöðu kappans í síðustu þremur leikjum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×