Þegar drykkurinn Prime fór í sölu hér á landi í lok síðasta árs myndaðist öngþveiti á sölustöðum drykkjarins. Dæmi voru um að börn skrópuðu í skólanum til að fjárfesta í drykknum sem er svo vinsæll að meira að segja tómar flöskur af honum hafa verið til sölu á netinu.
Vinsældir drykkjarins má rekja til forsprakka hans, samfélagsmiðlastjarnanna KSI og Logan Paul. Aðdáendur þeirra víða um heim hafa beðið með eftirvæntingu eftir að smakka drykkinn síðan hann kom fyrst út.
Áhyggjur af magni A-vítamíns í drykknum
Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur er þó ekki mikið fyrir Prime, sérstaklega þegar kemur að innihaldi drykkjarins. Fjallað hefur verið um óvenju mikið magn A-vítamíns í drykknum en í einni flösku er rúmlega tvöfaldur ráðlagður dagsskammtur fyrir börn af vítamíninu.
Rætt var við Elísabetu um innihald drykkjarins í Bítinu á Bylgjunni í morgun:
„Það er of mikið A-vítamín fyrir börn en ég efast nú um… þau þurfa að drekka svolítið hressilega til að fá A-vítamín eitrun því A-vítamín er fituleysanlegt vítamín. Þau þurfa þá að borða eitthvað til að taka þetta upp, eitthvað sem er með fitu, þau þurfa þá að drekka þetta með mat. En þá er spurning ef þau eru ekki að drekka þetta með mat, hvað verður þá um A-vítamínið?
Elísabet útskýrir að líkaminn skolar ekki út A-vítamíninu og því safnast það upp.
„Það sem er vandamálið í þessu er að þau eru ekki að nýta þetta þannig þetta sest upp. Þú pissar þessu ekki, það er vandamálið sem fólk þarf að skilja. Þetta getur sest upp í lifrinni, þau eru að fara að drekka þetta á næstu mánuðum eða á meðan þessir áhrifavaldar eru ennþá vinsælir.“
Segir innihaldið vera „drasl“
Áhyggjur Elísabetar snúa þó ekki bara að magni A-vítamíns í drykknum. „Það sem er alvarlegt þarna það er sítrónusýra sem getur valdið skaða í slímhúðinni, börn með astma eru í hættu, börn með ristilvandamál eru í hættu. Þannig við gleymum að horfa á aðrar innihaldslýsingar sem geta skaðað börnin,“ segir hún.
Þá var rætt um það hvort það ætti að banna drykkinn fyrir börn og ungmenni, sem eru einmitt helsti markhópur Prime. Elísabet útskýrði að drykkurinn væri innan marka og því komist hann hjá bönnum. Þó svo að drykkurinn sleppi í gegnum reglugerðir var Elísabet harðorð um innihald hans: „Allt í þessum drykk er bara drasl.“
Elísabet sagðist þó kannski geta huggað sig við að sjá amínósýrur í innihaldslýsingu drykkjarins. „Amínósýrur eru góðar fyrir taugaboðefnin. Krökkunum veitir nú ekki af því, aðeins að „bústa“ upp jákvæðnina og drifkraftinn.“