Körfubolti

Gefa Dallas D í einkunn fyrir Kyrie Irving skiptin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Brooklyn Nets sem sendi hann til Texas.
Kyrie Irving hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Brooklyn Nets sem sendi hann til Texas. AP/Frank Franklin II

Kyrie Irving er nú orðinn leikmaður Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta og þar með liðsfélagi Slóvenans Luka Doncic.

Eftir að Irving óskaði eftir því að vera skipt frá Brooklyn Nets þá sáu kannski flestir fyrir sér að hann færi til Los Angeles Lakers og því var sérstakt að sjá þennan frábæra bakvörð enda í Dallas.

En hversu góð skipti eru þetta og hvort liðið hafði betur í skiptunum? Sérfræðingar ESPN eru ekki í neinum vafa.

Þrátt fyrir að Kyrie Irving myndi nú eitt öflugasta tvíeyki deildarinnar með Doncic þá fær Dallas ekki háa einkunn.

Sérfræðingar ESPN gefa Dallas Mavericks bara D í einkunn fyrir þessi leikmannaskipti. Brooklyn Nets fær að sama skapi B+ í einkunn fyrir sinn hlut í skiptunum.

Irving fer ekki einn til Dallas heldur tekur hann Markieff Morris með sér.

Brooklyn fékk aftur á móti til baka leikmennina Dorian Finney-Smith og Spencer Dinwiddie sem og valrétti úr bæði fyrstu og annarri umferð. Dinwiddie þekkir vel til hjá Nets því hann spilaði þar í fimm tímabil frá 2016 til 2020.

Irving er að renna út á samningi og því er allt eins líklegt að hann stoppi stutt í Dallas gangi hlutirnir ekki upp.

Irving er aftur á móti að skora 27,1 stig í leik í deildinni og fyrir hjá liðinu er auðvitað Doncic sem er að skora 33,4 stig og gefa 8,2 stoðsendingar í leik á þessari leiktíð.

Finney-Smith og Dinwiddie halda báðir upp á þrítugsafmælið sitt á þessu ári. Dinwiddie er með 17,7 stig í leik og Finney-Smith var að skila 9,1 stigi í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×