Handbolti

Kara­batic skrifar undir nýjan samning og spilar fram á fimm­tugs­aldurinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nikola Karabatic er hvergi nærri hættur.
Nikola Karabatic er hvergi nærri hættur. Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Franski handboltamaðurinn Nikola Karabatic, sem er af mörgum talinn einn allra besti handboltamaður sögunnar, hefur skrifað undir nýjan samning við franska stórveldið PSG.

Karabatic skrifaði í vikunni undir eins árs framlengingu á samningi sínum við félagið og er því samningsbundinn Parísarliðinu út júní á næsta ári.

Franska stórskyttan verður 39 ára í vor og hann verður því orðinn fertugur þegar nýi samningurinn hans rennur út. Mögulega þýðir þetta að Karabatic ætli sér að taka þátt með franska landsliðinu á Ólympíuleikunum sem fara fram í París á næsta ári, en það verður þó að koma í ljós.

Eins og áður segir er Karabatic af mörgum talinn vera einn allra besti handboltamaður sögunnar. Hvað svo sem fólki kann að finnast um getu hans inni á handboltavellinum, þá er það algjörlega óumdeilt að titlarnir sem leikmaðurinn hefur unnið á löngum ferli sínum tala sínu máli. Ekki verður farið yfir hvern einn og einasta titil hér - enda væri það ógerningur - en þó verður stiklað á stóru.

Með félagsliðum sínum hefur hann unnið Meistaradeild Evrópu í þrígang, heimsmeistaramót félagsliða í tvígang, frönsku deildina fjórtán sinnum og þýsku deildina fjórum sinnum ásamt ótrúlegum fjölda af bikarmeistaratitlum.

Þá hefur Karabatic einnig orðið Ólympíumeistari með franska landsliðinu í þrígang, heimsmeistari fjórum sinnum og Evrópumeistri í þrígang. Hann hefur leikið 335 leiki fyrir franska landsliðið frá árinu 2003 og skorað í þeim 1255 mörk, sem gerir hann að fjórtánda markahæsta landsliðsmanni sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×