Handbolti

Góður leikur Arons í sigri í toppslagnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson átti mjög góðan leik í kvöld.
Aron Pálmarsson átti mjög góðan leik í kvöld. Álaborg

Aron Pálmarsson átti góðan leik fyrir lið Álaborgar þegar liðið vann góðan sigur á GOG í toppslag dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í dag.

Lið Álaborgar og GOG eru bæði stjörnum prýdd lið en auk Arons í liði Álaborgar eru leikmenn eins og Kristian Björnsen og Felix Claar en Mikkel Hansen kom ekki við sögu í leiknum.

Hjá meistaraliði GOG er heimsmeistarinn Simon Pytlick sem sló í gegn á heimsmeistaramótinu sem nú er nýlokið.

Leikurinn var jafn til að byrja með en Álaborg náði þriggja marka forskoti í stöðunni 10-7 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Staðan í hálfleik var 15-13 fyrir heimamenn og Aron að spila vel.

Í síðari hálfleik hélt Álaborg frumkvæðinu. GOG tókst að jafna í stöðunni 23-23 og komast yfir í kjölfarið. Þá kom 5-1 kafli frá Álaborg sem tryggðu sér sigurinn. Lokatölur 30-26 og Aron og félagar nú einir í toppsæti deildarinnar.

Aron endaði leikinn í dag með sex mörk úr átta skotum auk þess að gefa þrjár stoðsendingar. Hann var markahæstur í liði Álaborgar ásamt Felix Claar en Simon Pytlick skoraði 10 mörk fyrir GOG.

Einar Þorsteinn Ólafsson kom ekkert við sögu hjá Frederecia sem vann 29-27 sigur á Midtjylland. Frederecia er í áttunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×