Körfubolti

Færð ekki Jokic til að gera mikið úr því að vera með þrennu í leik: „Úúúúúúúúúú“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic með boltann í leik með Denver Nuggets. Liðið tapar ekki þegar hann er með þrennu.
Nikola Jokic með boltann í leik með Denver Nuggets. Liðið tapar ekki þegar hann er með þrennu. AP/David Zalubowski

Nikola Jokic hefur átt enn eitt frábæra tímabilið með liði Denver Nuggets í NBA deildinni í körfubolta og eftir stórleiki í vikunni þá kom hann tölfræði sinni upp í þrennu að meðaltali í leik.

Þessi 27 ára gamli serbneski miðherji er einn allra besti sendingamaður deildarinnar og liðsfélagar hans fá hvað eftir annað boltann frá honum í frábærum færum.

Jokic, sem hefur verið kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar undanfarin tvö tímabil, er með 25,0 stig, 11,1 frákast og 10,1 stoðsendingu að meðaltali í leik eftir 45 fyrstu leikina.

Hann náði sextándu og sautjándu þrennu sinni á tímabilinu í sigrum á New Orleans Pelicans og Golden State Warriors þar sem miðherjinn útsjónarsami bauð upp á 26 stig, 18 fráköst og 15 stoðsendingar á 38 mínútum á móti Pelíkönunum og svo 22 stig, 14 fráköst og 16 stoðsendingar á 33 mínútum á móti meisturum Golden State.

Nuggets liðið hefur unnið alla sautján leikina þar sem hann er með þrennu og liðið er á miklu skriði því hann er búinn að vera með þrennu í átta af síðustu tíu leikjum.

Jokic var með 27,1 stig, 13,8 fráköst og 7,9 stoðsendingar í leik í fyrravetur og veturinn á undan var hann með 26,4 stig, 10,8 fráköst og 8,3 stoðsendingar í leik. Bæði árin var hann kosinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar.

Eftir fyrri þrennuleikinn var Serbinn spurður út í þá staðreynd að hann væri með þrennu að meðaltali en bauð upp á frekar fyndin viðbrögð eins og sjá má hér fyrir neðan.

Það er ljóst að þú færð ekki Jokic til að gera mikið úr því að hann sé með þrennu að meðaltali. Svarið var fyndið „úúúúúúúúúú“ sem fékk blaðamenn til að skella upp úr.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×