Pytlick sló í gegn á sínu fyrsta stórmóti og átti stóran þátt í því að Danir urðu heimsmeistarar þriðja skiptið í röð, eitthvað sem ekkert annað lið hefur afrekað. Pytlick skoraði 51 mark á HM og var fjórði markahæsti leikmaður mótsins. Níu þeirra komu í úrslitaleiknum gegn Frakklandi sem Danmörk vann, 29-34.
Heimsmeistararnir komu heim til Danmerkur í gær og fögnuðu titlinum á ráðhústorginu í Kaupmannahöfn. Leikmenn danska liðsins voru misvel sofnir og í misgóðu ástandi í fögnuðinum.
„Þetta hefur verið gaman. Og ég held að við höfum fagnað vel í gær [í fyrradag]. Það var líka nokkuð seint og höfuðið er nokkuð þungt núna. Ég hef ekki sofið mikið,“ sagði Pytlick við TV 2.
„Þegar þú vaknar og sérð þetta aðeins í fjarlægð er fínt að horfa á gullmedalíuna. Ég er bara ótrúlega stoltur að vera í þessari stöðu.“
Pytlick, sem er 22 ára, leikur með GOG í heimalandinu. Hann varð danskur meistari með liðinu á síðasta tímabili.