Viðskipti innlent

„Ég held að það muni al­gjör­lega frysta markaðinn“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Páll Heiðar Pálsson fasteignasali segir húsnæðisverð ekki fara hækkandi.
Páll Heiðar Pálsson fasteignasali segir húsnæðisverð ekki fara hækkandi. Vísir/Arnar

Vaxtaákvarðanir Seðlabankans hafa skilað árangri að sögn fasteignasala sem segir húsnæðisverð ekki fara hækkandi. Frekari vaxtahækkanir muni þó frysta markaðinn.

Í nýlegri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að fáar íbúðir séu til sölu með greiðslubyrði undir 250 þúsund krónum. Fyrir þá sem taka óverðtryggt lán fyrir 80 prósent af kaupverði og eru með greiðslugetu upp á 250 þúsund - eru aðeins um hundrað íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu en í byrjun ársins 2020 voru þær yfir 800.

„Þetta er svona að segja okkur það að reglurnar sem bankinn er að setja takmarkar fjölda fólks til þess að fara inn á markaðinn miðað við óverðtryggt lán sem þýðir það, að rosalega margir eru að fara yfir í verðtryggt lán,“ segir Páll Heiðar Pálsson fasteignasali. 

Hann telur ákvarðanir seðlabankans skila árangri.

„Af því að frá og með að bankinn hækkaði vexti þá tempraðist hækkun á fasteignaverði sem var náttúrulega markmiðið - einmitt til að tempra verðbólgu. Þannig að þetta er klárlega að hjálpa.“

Hann segir að haustið hafi verið mjög rólegt. Októbermánuður var söluminnsti mánuðurinn í tíu ár - en Páll segir markaðinn vera að taka við sér.

„Við erum að sjá fleira fólk á opnum húsum, við erum að sjá fleiri tilboð og við erum ekki að sjá sömu ládeyðu og hefur verið í haust þannig okkar upplifun er sú að markaðurinn sé að taka við sér. 

En hvað getur skýrt það? 

„[Það] gætu verið kjarasamningarnir. Ég var á þeirri skoðun að það þrennt þyrfti að gerast svo markaðurinn færi af stað af alvöru. Það eru náttúrulega kjarasamningarnir, vextir og verðbólga þarf að lækka.“

Næsti ákvörðunardagur peningastefnunefndar er í febrúar og segir Páll að frekari vaxtahækkun muni hafa slæmar afleiðingar í för með sér fyrir fasteignamarkaðinn.

„Ég held að það muni algjörlega frysta markaðinn. Hann hefur kólnað miðað við sama tíma í fyrra en er alls ekki frosinn. Það gengur vel, það gengur öllum vel að kaupa og selja en ég held að þetta muni útiloka fleiri kaupendur að komast inn á markaðinn ef vextir hækka enn frekar.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×