Skoðun

Nýtum tæki­færi – opnum sam­talið

Freyr Hólm Ketilsson skrifar

Heilbrigðiskerfið stendur á tímamótum. Á sama tíma og það tekst á við stórar áskoranir hefur hröð nýsköpun og þróun í heilsu- og líftækni á síðustu árum hér á landi opnað ný tækifæri. Með því að nýta þau getum við tekist betur á við þessar áskoranir.

Aukið álag á heilbrigðiskerfið með hækkandi lífsaldri fólks er dæmi um áskorun sem heilsutækni getur hjálpað til að leysa. Í nýlegri greiningu sem McKinsey gerði fyrir heilbrigðisráðuneytið á framtíðarþjónustu Landspítalans kemur fram að til ársins 2040 þarf að fjölga starfsfólki Landspítala um 45% og að rekstrarkostnaður muni aukast um 90% ef rekstur verður með óbreyttu sniði. Með aukinni áherslu á nýsköpun og stafrænar lausnir í heilbrigðiskerfinu telur McKinsey hins vegar að aðeins þurfi að fjölga starfsfólki um 3% og að kostnaður aukist um 30%. Þetta er skýrt dæmi um mikilvægi þess að við virkjum þau tækifæri sem nýsköpun og þróun í heilsutækni skapa.

Í nýrri skýrslu Heilsutækniklasans Nýsköpun og þróun fyrir heilbrigðisþjónustu kemur fram í kortlagningu á geiranum að íslensk heilsu- og líftæknifyrirtæki séu 68 talsins, þar sem 21 þeirra eru skráð í Heilsutækniklasann nú rétt rúmum þremur mánuðum frá stofnun hans. Því má segja að Heilsutækniklasinn sé vaxandi vettvangur allra þeirra aðila sem aðkomu eiga að nýsköpun, þróun og stefnu í heilbrigðismálum. Samstarfsvettvangur sem þessi getur komið ólíkum aðilum saman og ýtt undir framgang nýrrar tækni og lausna fyrir heilbrigðiskerfið.

Í skýrslu Heilsutækniklasans kemur einnig fram að á Íslandi er allt til staðar svo við getum orðið í fremstu röð á þessu sviði. Það eina sem stendur í veginum er betra og skilvirkara samtal og samstarf allra þeirra aðila sem koma að heilbrigðismálum, sérstaklega á milli hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu og einkaaðila.

Það er því fagnaðarefni að heilbrigðisráðherra hafi skipað stýrihóp um þróun og stefnumótun varðandi stafrænar lausnir í heilbrigðisþjónustu. Það er löngu tímabært að uppfæra opinbera stefnu og skerpa á áherslum um stafrænar lausnir. Til þess að vinna stýrihópsins skili tilætluðum árangri er mikilvægt að hann nýti sér þá reynslu og þekkingu sem þú þegar er til staðar í íslenskum fyrirtækjum á sviði heilsu- og líftækni. Þar getur Heilsutækniklasinn komið stýrihópnum og heilbrigðisráðherra að liði.

Framtíð heilsu- og líftækni á Íslandi er best borgið með skilvirkara og auknu samtali milli stjórnvalda og bransans. Heilsutækniklasinn er staðsettur á krossgötum þessara aðila og vill opna á samtalið og hefjast handa í þessari vegferð.

Höfundur er stofnandi Heilsutækniklasans og framkvæmdastjóri.
Skoðun

Sjá meira


×