Handbolti

Svíar og Frakkar áfram en Gottfridsson meiddist

Smári Jökull Jónsson skrifar
Glenn Solberg og lærisveinar hans fagna á hliðarlínunni í kvöld.
Glenn Solberg og lærisveinar hans fagna á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/EPA

Svíþjóð og Frakkland tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum á heimsmeistaramótinu í handknattleik með sigrum á Egyptum og Þjóðverjum. Sigur Svía gæti þó orðið þeim dýrkeyptur.

Svíar eru búnir að færa sig yfir til Stokkhólms og tóku á móti Egyptum í Tele 2 Arena. Svíar voru sterkari aðilinn frá upphafi og leiddu 14-9 í hálfleik. Andreas Palicka, sem átti stórleik í sigri Svía á Íslandi, átti frábæran fyrri hálfleik og var maðurinn á bakvið fimm marka forskot þeirra í hálfleik.

Í síðari hálfleik héldu Svíarnir forskotinu og unnu að lokum 26-22 sigur. Sigurinn gæti þó orðið dýrkeyptur. Lykilleikmaðurinn Jim Gottfridsson fór af velli meiddur og óttast Svíar að þátttöku hans á mótinu sé lokið.

Jim Gottfridsson fór meiddur af velli í kvöld.Vísir/EPA

Í frétt Aftonbladet kemur fram að Gottfridsson sé mögulega fingurbrotinn eða að fingurinn hafi farið úr lið. Hann var fluttur á sjúkrahús í myndatöku og bíða Svíar með öndina í hálsinum eftir fréttum.

Niklas Ekberg var markahæstur hjá Svíum með sex mörk en Hassan Kaddah og Mohsen Mahmoud skoruðu fimm fyrir Egypta.

Í hinum leik kvöldsins mættust Þjóðverjar, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, og margfaldir heimsmeistarar Frakka. Þjóðverjar voru betri aðilinn lengst af og leiddu allt fram í miðjan síðari hálfleik.

Dika Mem reynir skot að marki Þjóðverja í leiknum í kvöld.Vísir/EPA

Þá tóku Frakkar við sér. Remi Desbonnet var stórkostlegur í markinu og Frakkar náðu góðri forystu. Frakkar keyrðu einfaldlega yfir Þjóðverja síðustu tuttugu mínúturnar og unnu að lokum 35-28 sigur og tryggðu sér sæti í undanúrslitum heimsmeistaramótsins.

Ludovic Fabregas og Nedim Remili skoruðu báðir fimm mörk fyrir Frakka en Johannes Golla skoraði sex mörk fyrir Þjóðverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×