Umfjöllun og viðtal: Grindavík - Breiðablik 82-59 | Fjórði sigur Grindavíkur í röð

Siggeir F. Ævarsson skrifar
grind
VÍSIR/VILHELM

Grindavík vann öruggan sigur á Breiðablik í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í kvöld en liðin mættust suður með sjó. Lokatölur 82-59 og Grindavík eltir Njarðvík í baráttunni um sæti í úrslitakeppni.

Það var ekki boðið uppá mikla flugeldasýningu í Grindavík í kvöld þar sem Grindavíkurkonur sóttu öruggan sigur gegn lánlausu liði Breiðabliks. Fjórði sigur Grindavíkinga í röð staðreynd, og sömuleiðis fjórða tap Blika.

Blikar byrjuðu leikinn þó ágætlega í blábyrjun, og gripu Grindvíkinga mögulega aðeins í bólinu. Komust í 0-4 og sóknarleikur Grindvíkinga hægur í gang. Þá tók hin sænska Amanda Okodugha til sinna ráða, en sóknarleikur hennar hefur heldur betur verið stígandi í síðustu leikjum. Með hana í farabroddi sóttu Grindvíkingar hart á og voru komnar 12 stigum yfir eftir fyrstu 10 mínúturnar.

Það var boðið uppá meira af því sama í 2. leikhluta. Grindavík að hitta ágætlega, rótera vel, vinna flesta 50/50 bolta og spila fantagóða vörn. Grindavík var með 9 stolna bolta í hálfleik, og 18 stig skoruð eftir tapaða bolta hjá Blikum.

Heilt yfir var seinni hálfleikurinn miklu betri hjá Breiðabliki en munurinn einfaldlega orðinn alltof mikill í hálfleik, staðan 51-27 og eiginlega orðið hálfgert formastriði fyrir Grindavík að klára leikinn, sem þýddi að þær gátu leyft sér að gefa reynsluminni leikmönnum mínútur og hvíla lykilleikmenn.

Í þriðja leikhluta kom smá vonarneisti hjá Blikum, sem skoruðu 8-0 en það var í raun bara eins og dropi í hafið, og Grindvíkingar rúlluðu heim þægilegum sigri, lokatölur 82-59.

Af hverju vann Grindavík?

Þær byggðu upp stórt forskot í fyrri hálfleik og bættu í í þriðja leikhluta, og gerðu þar með útum leikinn. Munurinn mest 28 stig og Blikar aldrei líklegir til að vinna það til baka á síðustu 15 mínútum leiksins.

Hverjar stóðu upp úr?

Erlendu leikmenn Grindavíkur fóru fyrir stigaskorinu í kvöld, Dani með 20, Elma með 18 og Amanda 14. Dani bætti við 7 fráköstum, 9 stoðsendingum og 9 stolnum boltum. Hún var því aðeins hárbreidd frá sjaldséðri fjórfaldri tvennu!

Hjá Blikum var Sanja Orozovic sú eina með einhverju lífsmarki sóknarlega, skoraði 22 stig og tók 13 fráköst.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Blika var ekki upp á marga fiska í kvöld, og vonleysið skein úr augum leikmanna eftir því sem leið á leikinn og fátt gekk upp sóknarmegin. Aðeins þrír þristar ofan í hjá þeim að þessu sinni í 23 tilraunum, sem gerir 13% nýtingu.

Hvað gerist næst?

Grindavíkingar eru komnar á góða siglingu og farnar að setja mikla pressu á Njarðvíkinga í slagnum um 4. og síðasta sætið í úrslitakeppninni. Framundan er hörku prógram hjá Grindvíkingum, en næsti leikur þeirra er 29. janúar á útivelli gegn Haukum, og svo fylgja leikir gegn Val og Keflavík strax í kjölfarið.

Blikar þurfa heldur betur að fara að girða sig í brók, sérstaklega ef botnlið ÍR ætlar að fara að safna sigrum í sarpinn. Næsti leikur þeirra er einmitt gegn öðru lánlausu liði, Fjölni þann 29. janúar. Sigur þar myndi færa þær upp að hlið Fjölnis í töflunni.

„Við þurfum að einbeita okkur að því að spila góðan körfubolta í 40 mínútur“

Jeremy Smith er þjálfari Blikakvenna en leikur með karlaliði félagsins í Subway-deildinni.Vísir/Pawel

Jeremy Smith þjálfari Breiðabliks er alltaf léttur og sennilega frekar bjartsýnn maður að eðlisfari. Það var ekki mikinn bilbug á honum að finna þrátt fyrir stórt tap í kvöld, en hann sagði að flatur fyrri hálfleikur frá hans konum hefði kostað þær sigurinn.

„Mér fannst við vera ansi flatar í byrjun leiks. Í seinni hálfleik vorum við miklu ákveðnari í öllum okkar aðgerðum, tölfræðilega var seinni hálfleikurinn heilt yfir betri. Mér fannst við virka orkulausar í fyrri hálfleik. Við þurfum að einbeita okkur að því að spila góðan körfubolta í 40 mínútur. Í síðasta leik náðum við svona 32 góðum mínútum, og 20 í dag, og það dugir ekki til.

Það gengur hægt hjá Blikum að safna sigrum í sarpinn þetta tímabilið. Er ekkert erfitt að finna neistann og hvetja leikmenn áfram þegar svona gengur?

„Það er reyndar bara mjög létt! Þær leggja sig 100% fram og reyna að gera það sem ég legg upp með. Þannig að ég er mjög ánægður með hvernig þær eru að leggja sig fram, burtséð frá því hvernig leikirnir eru að fara. Þær eru með fókusinn á að vaxa og þroskast sem leikmenn, en ekki á úrslit einstakra leikja. Þessi hópur er búinn að ganga í gegnum ýmislegt á þessu tímabili og ég gæti ekki verið sáttari með hvernig þær leggja sig allar fram þrátt fyrir mótlætið.“

Nú þegar ÍR-ingar eru komnir með sigur á töfluna, finnur Jeremy ekkert fyrir auknum þrýstingi um að sogast hreinlega niður í botnsætið?

„Nei, alls ekki. Með fullri virðingu fyrir öllum öðrum liðum í deildinni þá erum við bara að hugsa um okkar lið og okkar leiki. Það er það eina sem við getum stjórna. Ég er alltaf bjartsýnn í hvert sinn sem við reimum á okkur skóna og mætum á parketið.“


Tengdar fréttir

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.