Handbolti

Sammála um að landsliðsferill Arons sé vonbrigði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson náði sér ekki á strik á HM.
Aron Pálmarsson náði sér ekki á strik á HM. vísir/vilhelm

Strákarnir í Handkastinu voru sammála um að ferill Arons Pálmarssonar með íslenska handboltalandsliðinu hafi verið vonbrigði.

Aron skoraði níu mörk í fyrstu fjórum leikjum Íslands á HM en missti af síðustu tveimur leikjunum vegna meiðsla. Hafnfirðingurinn hefur aðeins klárað þrjú af síðustu tíu stórmótum.

Í síðasta þætti Handkastsins spurði Arnar Daði Arnarsson þá Theodór Inga Pálmason og Loga Geirsson hvort landsliðsferill Arons væri ekki ein stór vonbrigði.

Engin kóngastaða

„Jú, hann er ekki búinn að halda út stórmótin. En aðeins honum til varnar, hann hefur verið notaður fimmtán mínútur í hvorum hálfleik í liðunum sem hann hefur verið í. Svo kemur hann í landsliðið og er bara inn á í 55 mínútur í fyrstu þremur leikjunum. Það er drulluerfitt,“ sagði Logi.

Aron hefur verið í íslenska landsliðinu síðan 2008.vísir/vilhelm

„Vinstri skyttustaðan er kóngastaðan í Þýskalandi en rusl á þessu móti hjá okkur. Það kom ekki mark þaðan og ekkert að frétta.“

Bara í prófessor-handbolta

Logi benti þó á að Aron væri notaður vitlaust í landsliðinu. Íslendingar ættu að nýta hann eins og Danir nýta Mikkel Hansen.

„Hann er lúxusleikmaður. Hann fer aldrei í „kontakt“ eða fintu. Hann fær boltann, fer upp og skýtur. Við hefðum þurft að nota Aron þannig en hann er ekki einu sinni að gera þau mörk,“ sagði Logi. 

„Hann er bara í prófessor-handbolta, kíkja í hornið, er einhver í betri stöðu en ég. Þú þarft ekki þannig mann í vinstri skyttuna. Þú þarft bara mann sem skýtur á f-ing markið.“

Ekki lengur hægt að treysta á Aron

Theodór segir að þeir tímar að hægt sé að treysta á að Aron leiði íslenska liðið áfram séu liðnir. „Við tökum það alltaf með inn í jöfnuna að við eigum að ná þessum árangri því við erum með Aron Pálmarsson. Þurfum við ekki að taka hann út úr myndinni sem þann prófíl?,“ sagði Theodór.

„Það er búið,“ sagði Logi. „Enn eitt mótið, allt undir, liðið geggjað og væntingar. Það kom ekkert út úr honum.“

Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×