Handbolti

Danski þjálfarinn hætti við allar æfingar og leyfði leikmönnum að sofa út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnus Saugstrup Jensen fagnar marki á HM en hann og félagar hans slöppuðu af fyrir leikinn á móti Ungverjum í dag.
Magnus Saugstrup Jensen fagnar marki á HM en hann og félagar hans slöppuðu af fyrir leikinn á móti Ungverjum í dag. AP/Andreas Hillergren

Þjálfari dönsku heimsmeistaranna fór öðruvísi leið í undirbúningi liðsins fyrir leikinn á móti Ungverjum í átta liða úrslitum á HM í handbolta.

Nicolaj Jacobsen ákvað að hætta við allar æfingar í aðdraganda leiksins og ástæðan er svefnleysi að undanförnu.

Danir hafa leikið 25 leiki í röð á HM án þess að tapa, sem er metjöfnun, og gera orðið fyrsta handboltaþjóðin til að vinna þrjá heimsmeistaratitla í röð.

Danir mæta liðinu sem skildi okkur Íslendinga svo sárgrætilega eftir í riðlinum þökk sé skelfilegum átján mínútna kafla. Það lítur út fyrir að Jacobsen hafi ekkert allt of miklar áhyggjur af ungverska liðinu.

Leikurinn fer fram í kvöld en leikmenn fengu að sofa út og hvíla lúin bein.

„Menn eru of þreyttir til að æfa. Það hefur verið of lítill svefn svo að undirbúningurinn mun snúast um að slappa af og ná eins miklum svefni og mögulegt er,“ sagði Nicolaj Jacobsen við Ritzau.

„Að auki hefur leikurinn líka verið færður fram um tvo og hálfan tíma miðað við það sem við erum vanir. Þetta snýst því um að mæta með eins ferska fætur og mögulegt er,“ sagði Jacobsen.

Leikur Dana og Ungverja hefst klukkan 17.00 í dag að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×