Handbolti

Bjarki Már bestur á HM en Aron og Ýmir verstir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson stóð upp úr í íslenska liðinu á HM.
Bjarki Már Elísson stóð upp úr í íslenska liðinu á HM. vísir/vilhelm

Bjarki Már Elísson var besti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handbolta á HM samkvæmt einkunnagjöf íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports.

Bjarki var með hæstu meðaleinkunn allra leikmanna Íslands hjá íþróttadeild, eða 4,7. Hann fékk fimm fimmur og einn þrist. Bjarki var langmarkahæsti leikmaður Íslands á HM með 45 mörk og er næstmarkahæstur á mótinu.

Kristján Örn Kristjánsson var með næsthæstu meðaleinkunnina, eða 4,3. Hann var utan hóps í fyrstu þremur leikjum Íslands á HM en lék síðustu þrjá leikina og skoraði í þeim samtals fjórtán mörk.

Kristján Örn Kristjánsson nýtti sínar mínútur á HM vel.vísir/vilhelm

Ómar Ingi Magnússon, Íþróttamaður ársins 2021 og 2022, fékk 4,0 í meðaleinkunn í þeim fjórum leikjum sem hann spilaði á HM sem var það þriðja hæsta í íslenska liðinu.

Aron Pálmarsson og Ýmir Örn Gíslason voru með lægstu meðaleinkunn strákanna okkar, eða 2,8. Aron lék fyrstu fjóra leiki Íslands á HM en missti af síðustu tveimur vegna meiðsla. Ýmir lék alla leikina. Hann fékk aldrei hærra en 3,0 í einkunn. Aron og Ýmir voru einu leikmenn Íslands sem voru með undir 3,0 í meðaleinkunn. Fimm leikmenn voru með 3,0 í meðaleinkunn.

Aðeins einn leikmaður fékk hæstu mögulegu einkunn fyrir frammistöðu sína í leik á HM. Það var Björgvin Páll Gústavsson fyrir fyrsta leikinn gegn Portúgal sem Ísland vann, 30-26. Enginn leikmaður fékk hins vegar lægstu einkunn, eða ás, á mótinu.

Meðaleinkunn íslensku leikmannanna á HM

  • Bjarki Már Elísson - 4,7 (6 leikir)
  • Kristján Örn Kristjánsson - 4,3 (3 leikir)
  • Ómar Ingi Magnússon - 4,0 (4 leikir)
  • Gísli Þorgeir Kristjánsson - 3,7 (6 leikir)
  • Sigvaldi Guðjónsson - 3,6 (5 leikir)
  • Óðinn Þór Ríkharðsson - 3,5 (4 leikir)
  • Arnar Freyr Arnarsson - 3,5 (4 leikir)
  • Elvar Ásgeirsson - 3,5 (2 leikir)
  • Björgvin Páll Gústavsson - 3,4 (5 leikir)
  • Elliði Snær Viðarsson - 3,3 (6 leikir)
  • Janus Daði Smárason - 3,2 (5 leikir)
  • Viggó Kristjánsson - 3,0 (4 leikir)
  • Ólafur Guðmundsson - 3,0 (1 leikur)
  • Hákon Daði Styrmisson - 3,0 (2 leikir)
  • Elvar Örn Jónsson - 3,0 (4 leikir)
  • Viktor Gísli Hallgrímsson - 3,0 (6 leikir)
  • Aron Pálmarsson - 2,8 (4 leikir)
  • Ýmir Örn Gíslason - 2,8 (6 leikir)

Útskýring á einkunnum:

6 - Heimsklassa frammistaða

5 - Frábær frammistaða

4 - Góð frammistaða

3 - Sæmileg frammistaða - skilaði sínu

2 - Ekki nógu góð frammistaða

1 - Slakur leikur


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×