Handbolti

Eftirmaður Guðmundar hjá Dönum enn taplaus á HM og jafnaði metið í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikolaj Jacobsen hefur stýrt danska landsliðinu í 25 HM-leikjum í röð án þess að tapa.
Nikolaj Jacobsen hefur stýrt danska landsliðinu í 25 HM-leikjum í röð án þess að tapa. Getty/Kolektiff Images

Danska handboltalandsliðið jafnaði í gær magnað HM-met með sigri sínum á Egyptum í lokaleik sínum í milliriðli heimsmeistaramótsins. Eftirmaður Guðmundar Guðmundssonar hefur gert magnaða hluti með liðið.

Þetta var 25. leikur danska liðsins í röð í úrslitakeppni HM án þess að tapa leik. Danir hafa unnið heimsmeistaratitilinn á síðustu tveimur mótum og geta því unnið þriðja HM-titilinn í röð.

Danir jöfnuðu lengstu taplausu hrinu HM í gær en Frakkar léku einnig 25 leiki í röð án taps á HM 2015 til HM 2019.

Sigurganga Frakka endaði með tapi á móti Króötum í milliriðli á HM í Þýskalandi 2019. Frakkar höfðu orðið heimsmeistarar bæði 2015 og 2017.

Frakkar höfðu tekið metið af Rússum sem léku 19 HM-leiki í röð án taps frá 1995 til 1999 og Svíum sem jöfnuðu afrek Rússa á árunum 1999 til 2003.

Danir unnu alla tíu leiki sína á HM 2019 og átta af níu leikjum sínum á HM 2021. Liðið gerði þá jafntefli á móti Egyptum í átta liða úrslitum en unnu leikinn í vítakeppni.

Danska liðið hefur síðan unnið fimm af sex fyrstu leikjum sínum á þessu heimsmeistaramóti en þeir gerðu jafntefli við Króata í milliriðlinum.

Síðasti þjálfarinn til að tapa leik með danska landsliðið var Guðmundur Guðmundsson fyrir sex árum síðan.

Danska landsliðið tapaði bara einum leik í síðasta heimsmeistaramóti Guðmundar með liðið en það tap kom í leik í sextán liða úrslitum á móti Ungverjum sem þýddi að liðið endaði bara í tíunda sæti á HM 2017.

Nikolaj Jacobsen tók við af Guðmundi sem landsliðsþjálfari Dana og liðið hefur ekki tapað í úrslitakeppni HM síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×