Körfubolti

Ólétt WNBA stjarna segir félagið sitt hafa kúgað sig, spilað með sig og logið að sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dearica Hamby brosandi í leik með Las Vegas Aces liðinu á síðasta tímabili.
Dearica Hamby brosandi í leik með Las Vegas Aces liðinu á síðasta tímabili. Gettu/Chris Coduto

WNBA meistarar Las Vegas Aces skiptu á dögunum körfuboltakonunni Dearicu Hamby til Los Angeles Sparks en eftir skiptin þá sagði hún frá því hvernig félagið kom illa fram við hana.

Leikmannasamtökin eru komin með málið inn á sitt borð eftir kvartanir Hamby. Hún segir ljóta sögu af því hvernig var komið fram við hana eftir að hún sagði frá óléttu sinni.

Hin 29 ára gamla Hamby sagði Aces hafi ráðist gegn karakter hennar og vinnusiðfræði.

„Að vera skipt á milli liða er hluti af faginu en það er ekki hluti af faginu þegar það er logið að þér, þú kúguð, spilað með þig og þú verður fyrir mismunun,“ skrifaði Dearica Hamby.

Hamby skrifaði undir tveggja ára samning við Las Vegas liðið í júní. Hún sagði í samfélagsmiðlafærslu sinni að forráðamenn Aces hafi haldið því fram að hún hafi vitað að hún væri ófrísk þegar hún skrifaði undir.

„Það er rangt. Mér var sagt að ég væri spurningarmerki og að ég hafi sagt að ég yrði ófrísk aftur og það væri uppi efasemdir um hollustu mína við liðið,“ skrifaði Hamby.

Hamby sagði einnig frá efasemdum hjá forráðamönnum Aces um að hún yrði klár til að spila á tímabilinu en hún ætlar sér að spila á tímabilinu eftir að hún eignast barnið.

„Ég faldi ekki neitt fyrir neinum í félaginu en samt sem áður fékk ég að launum fyrir hreinskilni mína, fálæti, vanvirðingu og skeytingarleysi frá þeim sem stjórna félaginu. Ég hef alltaf sett þetta félag í fyrsta sæti síðan á fyrsta degi og ég hafði verið þarna löngu áður en einhver af þeim birtist,“ skrifaði Hamby.

Las Vegas Aces varð meistari í fyrsta sinn á síðasta tímabili og var Hamby einn af aðalleikmönnum liðsins með 9,3 stig og 7,1 frákast að meðaltali í deildarkeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×