Viðskipti innlent

Steinunn frá Stígamótum til Aton JL

Árni Sæberg skrifar
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir rær á ný mið á næstunni.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir rær á ný mið á næstunni. Vísir/Vilhelm

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir hefur senn störf sem ráðgjafi hjá samskiptafyrirtækinu Aton JL. Hún hefur um árabil verið talskona Stígamóta, sem leita nú nýrrar talskonu. Fólk af öllum kynjum er hvatt til að sækja um.

Steinunn tilkynnti um vistaskiptin á Facebook-síðu sinni í gær. Þar segir að hún muni hefja störf hjá Aton JL í mars eftir tæplega tólf ár hjá Stígamótum.

Hún kveðst spennt fyrir nýjum áskorunum, verkefnum og starfsvettvangi en segir erfitt að kveðja Stígamót. Hún kveðji þó ekki áður en hún skipuleggur tvær herferðir og eina ráðstefnu til.

„Ég held að það sé óhætt að segja að Stígamót séu einhver besti vinnustaður landsins með frábæru samstarfsfólki og endalausu frelsi fyrir alls konar hugmyndir. Ég er óendanlega þakklát fyrir allt það sem Stígamót hafa kennt mér og fyrir að hafa fengið að leggja baráttunni lið,“ segir Steinunn.

Leita nýrrar talskonu

Sem áður segir hefur Steinunn gengt stöðu talskonu Stígamóta lengi og því er um nokkur tímamót að ræða fyrir samtökin sem leita nú nýrrar talskonu.

Í auglýsingu á ráðningavefnum Alfreð segir að starf talskonu felist í því að berjast fyrir bættum hag og réttindum brotaþola kynferðisofbeldis, kynna starf Stígamóta og vekja vitund almennings, stjórnvalda, hagaðila og annarra um eðli og afleiðingar kynferðisofbeldis.

Athygli vekur að í auglýsingu er fólk af öllum kynjum kvatt til að sækja um starf talskonu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×