Körfubolti

„Hafði áhyggjur þangað til Hilmar fór og sturtaði einum alvöru í traffík“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Maté Dalmay, þjálfari Hauka.
Maté Dalmay, þjálfari Hauka. Vísir / Hulda Margrét

Mate Dalmay, þjálfari Hauka, var ánægður með sína menn eftir þriðja sigur liðsins í röð.

„Lykillinn var að vera á pari við þeirra einbeitingu og ákefð sem við vorum helvíti langt frá í fyrri hálfleik,“ sagði Mate.

„Ég sagði svo margt í hálfleik, mjög mikið af hvatningarorðum,“ sagði Mate sem vildi ekki nefna neitt sérstakt.

„Ég er ánægðastur með að eiginlega allt sem við þurftum að laga eftir fyrri hálfleikinn náðist að laga strax í þriðja leikhluta. Með því fylgdu mjög mikil gæði, við opnuðum þá ítrekað með auðveldum fléttum. Við tókum miklu fleiri góðar ákvarðanir heldur en rangar.“

Mate var ánægður að margir komu með eitthvað að borðinu þó að þeir hafi ekki allir skorað stig í leiknum. Hann nefndi sérstaklega Breka Gylfason sem átti mun betri seinni hálfleik eftir dapran fyrri hálfleik.

Hann var spurður hvort hann hafði áhyggjur af því að vörðu skot heimamanna, sem voru alls sex í leiknum, myndu fara í hausinn á sínum mönnum.

„Ég hafði áhyggjur af því þangað til Hilmar fór og sturtaði einum alvöru í traffík.“ Mate á þar við hörkutroðslu frá Hilmari Smára Henningssyni í seinni hálfleiknum.

Daníel Ágúst Halldórsson var að spila sinn fyrsta leik fyrir Hauka eftir að hafa komið frá Þórsurum á dögunum.

„Danni spilaði miklu meira út af meiðslum hjá Róberti. Einhvern tímann kallaði einhver kerfi sem hann kunni ekki og menn voru eitthvað að garga á hann. Það er mjög erfitt að spila leik þar sem andstæðingurinn verður að ná sigri og þú ert búinn að æfa tvisvar sinnum með liðinu. Mér fannst hann spila í góðu „comfort-zone-i“ og lofar mjög góðu.“

Haukar eru í fjórða sæti deildarinnar með níu sigra eins og tvö lið fyrir ofan þá. Eru Haukar með eitthvað annað markmið en að ná heimavallarrétti í fyrstu umferð úrslitakeppninnar?

„Eigum við ekki að byrja á því að halda okkur í topp fjórum og ná sigri gegn KR sem tók sigur í kvöld,“ sagði Mate að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×