Viðskipti erlent

Apple kynnir nýjan hátalara

Bjarki Sigurðsson skrifar
Apple HomePod-hátalararnir koma í verslanir í byrjun febrúar.
Apple HomePod-hátalararnir koma í verslanir í byrjun febrúar. Apple

Tæknirisinn Apple hefur kynnt til leiks nýjan hátalara, HomePod. Um er að ræða aðra kynslóð af hátölurunum en sú fyrsta kom út árið 2018. Fyrirtækið vonast eftir því að skáka fyrirtækjum á borð við Amazon, Google og Sonos með nýju græjunni. 

Hátalarinn mun kosta 299 Bandaríkjadali vestanhafs, tæpar 43 þúsund íslenskar krónur. Hátalarinn kemur í verslanir 3. febrúar næstkomandi og verður hægt að panta annað hvort hvítan eða svartan. 

Hægt verður að tengja hátalarann við Apple TV og nota sem heimabíóshátalara. Þá verður hægt að tengja nokkra hátalara saman og spila það sama í þeim á sama tíma, líkt og keppinautar þeirra á hátalaramarkaðnum hafa boðið upp á. 

Hátalarinn er með raka- og hitamæli og býður upp á að tengja mælana við önnur snjalltæki á heimilinu, svo sem sjálfvirkar gardínur eða ofna. Hægt verður að setja upp stillingar um að þegar hitastigið nær ákveðnu marki kviknar á ofnum og fleira. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×