Handbolti

Hafa aldrei spilað um verðlaun á HM en nokkrum sinnum munaði svo litlu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson í leik með íslenska landsliðinu á HM 2007 í Þýskalandi þar sem Ísland var svo grátlega nálægt því að spila um verðlaun
Snorri Steinn Guðjónsson í leik með íslenska landsliðinu á HM 2007 í Þýskalandi þar sem Ísland var svo grátlega nálægt því að spila um verðlaun Getty/Christof Koepsel

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur aldrei unnið til verðlauna á heimsmeistaramóti og í raun aldrei spilað um verðlaun ólíkt því sem liðið hefur gert oftar en einu sinni á bæði Ólympíuleikum og Evrópumótum. Nú eru verðlaunavæntingar hjá sumum fyrir heimsmeistaramótið sem hefst hjá okkar mönnum í kvöld.

Það hafa samt verið nokkur heimsmeistaramót þar sem íslenska liðið hefur verið mjög nálægt því að spila um verðlaun á HM í handbolta. Hér ætlum við að líta aðeins til baka og skoða bestu heimsmeistaramót íslenska landsliðsins til þessa.

Íslenska liðið hefur fimm sinnum verið í hópi sex bestu handboltaþjóða heims en bestum árangri náði liðið á HM í Kumamoto í Japan fyrir tæpum 26 árum síðan. Það munaði litlu í Kumamoto en strákarnir okkar hafa þó líklega aldrei verið nærri því að spila um verðlaun en á HM í Þýskalandi árið 2007.

Frétt í Tímaum um Gunnlaug Hjálmarsson og íslenska liðið á HM 1961.Skjámynd/timarit.is/Tíminn

6. sæti 1961

Íslenska liðið tók fyrst þátt í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í handbolta fyrir 65 árum síðan en íslenska liðið komst fyrst í hóp sex bestu þjóðanna á öðru heimsmeistaramóti þess sem fór fram í gamla Vestur-Þýskalandi í marsmánuði 1961.

Íslenska liðið steinlá með ellefu marka mun í fyrsta leik á móti Dönum en vann síðan Sviss og komst þar með áfram í milliriðil. Íslenska liðið byrjaði milliriðilinn á því að tryggja sér jafntefli á móti gríðarlega sterku liði Tékka með marki Gunnlaugs Hjálmarssonar örfáum sekúndum fyrir leikslok.

Íslenska liðið átti því möguleika á að spila um verðlaun en þær vonir urðu að engu eftir átta marka tap fyrir Svíum í næsta leik og sjö marka sigur í síðasta leiknum á móti Frökkum breytti engu um það. Íslenska liðið spilaði um fimmta sætið á móti Dönum og töpuðu með eins marks mun, 13-14, eftir að hafa verið 13-9 yfir þegar tólf mínútur voru eftir.

Íslenska landsliði endaði því í sjötta sæti en Tékkar, liðið sem strákarnir gerðu jafntefli við, fór alla leið í úrslitaleikinn sem Tékkar töpuðu á móti Rúmenum í tvíframlengdum leik. Svíar tóku bronsið.

Kristján Arason og Þorgils Óttar Matthiesen fagna sigri á HM í Sviss 1986 en þessi mynd birtist á forsíðu Morgunblaðsins.Skjámynd/timarit.is/Morgunblaðið

6. sæti 1986

Íslenska landsliðið hafði ekki átt góð heimsmeistaramót á áttunda áratugnum og missti alveg af HM 1982. Það var hins vegar að koma upp ný kynslóð sem hafði náð fjórða sætinu á sínu fyrsta stórmóti sem voru Ólympíuleikarnir í Los Angeles 1984.

Eftir þann árangur voru væntingarnar miklar til liðsisn í Sviss en íslenska liðið fékk áfall í byrjun þegar liðið tapaði stórt á móti Suður-Kóreu í fyrsta leik á HM í Sviss 1986. Íslensku strákarnir sýndu mikinn karakter með því að snú þessu við. Sigrar á Tékkum og Rúmenum komu íslenska liðinu í milliriðilinn en eins marks tap á móti Ungverjum og tap fyrir Svíum urðu til þess að liðið spilaði um fimmta sætið en ekki um verðlaun.

Stærsti sigur Íslands á HM til þessa tíma, 25-16 sigur á Dönum, breytti engu um það. Íslenska liðið tapaði síðan á móti Spánverjum í leiknum um fimmta sætið.

Dagblaðið Vísir fjallaði um árangur íslenska landsliðsins á HM í Kumamoto.Skjámynd/Timarit.is/DV

5. sæti 1997

Íslenska liðið átti magnað heimsmeistaramót í Kumamoto 1997. Liðið vann fjóra af fimm leikjum í riðlinum og fór taplaust inn í útsláttarkeppnina. Þar vann liðið 32-28 sigur á Noregi í sextán liða úrslitunum en tapaði síðan með eins marks mun á móti Ungverjum í átta liða úrslitunum.

Ungverjar töpuðu með tólf mörkum á móti Svíum í undanúrslitunum en íslenska liðið vann bæði Spán og Egypta í leikjum um fimmta til átta sætið. Íslenska liðið endaði því í fimmta sæti með sjö sigrar og aðeins eitt tap í níu leikjum sínum á móti. Þetta var og er enn besti árangur Íslands á HM í handbolta.

Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Pettersson fagna saman sigri á HM í Þýskalandi 2007.Getty/Christof Koepsel

8. sæti 2007

Næst því að leika um verðlaunasæti var íslenska liðið þó líklegast á HM 2007 í Þýskalandi. Íslenska liðið hafi tryggt sér sigur í riðlinum með átta marka sigri á Evrópumeisturum Frakka en endaði síðan í þriðja sæti í milliriðlinum á eftir Póllandi og Þýskalandi.

Í átta liða úrslitunum mætti íslenska liðið Dönum í rosalegum leik. Danir unnu á endanum 42-41 í framlengdum leik þar sem íslenska liðinu þótti á sér brotið í lokaskoti sínu. Alexander Petersson skaut í stöng eftir að augljóslega var brotið á honum og Danir fóru í sókn og skoruðu sigurmarkið. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fimmtán mörk í leiknum þar á meðal jöfnunarmarkið sem tryggði Íslandi framlengingu.

Íslenska liðið komst ekki yfir vonbrigðin og tapaði bæði fyrir Rússlandi og Spáni í leikjunum um fimmta til átta sætið. Áttunda sætið varð því niðurstaðan en árið eftir átti íslenska liðið eftir að vinna silfurverðlaun á Ólympíuleikunum.

6. sæti 2011

Síðast þegar heimsmeistaramótið fór fram í Svíþjóð, fyrir tólf árum, þá náði íslenska liðið einnig sjötta sætinu.

Íslenska liðið byrjaði mótið frábærlega og vann alla fimm leiki sína í riðlinum. Liðið náði ekki að fylgja því eftir og þrír tapleiki í röð í milliriðlinum þýddi að íslenska liðið spilaði ekki um verðlaun heldur um fimmta sætið.

Leikurinn um fimmta sætið tapaðist með eins marks mun á móti Króatíu, 33-34, þannig að mótið sem byrjaði á fimm sigrum í röð endaði á fjórum tapleikjum í röð. Sjötta sætið varð samt niðurstaðan sem er annar besti árangur Íslands í sögu HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×