Handbolti

Guðmundur: Er ekki að velta mér upp úr því sem sérfræðingarnir segja

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur á æfingu landsliðsins í gær.
Guðmundur á æfingu landsliðsins í gær. vísir/vilhelm

„Ég velti mér ekkert upp úr því,“ segir Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari aðspurður hvort það fari í taugarnar á honum að liðið sé talað upp í hæstu hæðir af þjóðinni og handboltasérfræðingum.

„Við erum að fá mikla athygli og höfum unnið fyrir því. Þannig gerist það bara. Það gekk vel á síðasta EM og þá er eðlilegt að fólk geri væntingar. Við verðum svo að höndla það og ekki láta það pirra okkur. Það gleður okkur.“

Handboltasérfræðingar hafa aðeins verið að skjóta á Guðmund fyrir að skipta sér af því hvað þeir séu að segja. Ólafur Stefánsson, fyrrum landsliðsfyrirliði, sagði á RÚV um daginn að Guðmundur ætti að hugsa um sitt og ekkert vera að skipta sér af því hvað hann og félagar hans væru að tjá sig.

Klippa: Guðmundur ekki upptekinn af sérfræðingunum

„Þetta var svolítið merkilegt því ég var að tala almennt stuttu eftir þennan Þýskalandsleik. Ég veit ekkert hvað Ólafur eða aðrir sérfræðingar voru að tala um í útsendingunni. Ég var ekkert að tala til þeirra,“ segir landsliðsþjálfarinn sem gerir ekki ráð fyrir að skipta sér af því sem verður sagt á mótinu.

„Ég er ekki að velta mér upp úr því sem þeir eru að segja á þessu móti. Alls ekki. Ég vil samt benda á að ég hef rétt á að tjá mig eins og aðrir um það sem er skynsamlegast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×