Handbolti

Fimmtíu bestu: Gleðigjafinn, veröld sársaukans og kjarnorkuverið úr Krikanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmennirnir sem enduðu í 40.-36. sæti í valinu á þeim bestu í efstu deild karla í handbolta á þessari öld.
Leikmennirnir sem enduðu í 40.-36. sæti í valinu á þeim bestu í efstu deild karla í handbolta á þessari öld.

Hér er farið yfir þá leikmenn sem enduðu í 40.-36. sæti í valinu á bestu leikmönnum í efstu deild karla í handbolta á þessari öld.

40. Sigurður Eggertsson

 • Lið: Valur (2001-10), Fram (2011-13)
 • Staða: Leikstjórnandi
 • Fæðingarár: 1982
 • Íslandsmeistari: 2007, 2013
 • Bikarmeistari: 2008, 2009
 • Silfur: 2002, 2004, 2009, 2010
 • Leikir í deild: 194
 • Mörk í deild: 507
 • Leikir í úrslitakeppni: 41
 • Mörk í úrslitakeppni: 92

Sigurður Eggertsson er ekki bara gleðigjafinn og sonur Agga Pó heldur einnig dúndur handboltamaður; eldsnöggur og skarpur sóknarmaður.

Þótt flestir tengi Sigurð eflaust við Val, enda lék hann þar fyrstu níu árin á ferlinum og vann þrjá stóra titla, átti hann sitt besta tímabil með Fram.

Sigurður gekk í raðir Fram 2011. Á fyrsta tímabili sínu hjá liðinu komst það í bikarúrslit en ekki í úrslitakeppnina. En tímabilið 2012-13 var draumi líkast í Safamýrinni.

Sigurður Eggertsson fagnar eftir að Fram varð Íslandsmeistari 2013.ljósmynd jgk

Fram toppaði þar á hárréttum tíma og varð Íslandsmeistari eftir að hafa unnið mjög svo sigurstranglega Hauka í úrslitaeinvígi, 3-1. 

Fram-liðið var vel samsett af yngri og eldri leikmönnum sem unnu vel saman. Sigurður var í seinni hópnum og átti stóran þátt í því að leiða Fram til fyrirheitna landsins á síðasta tímabili sínu í efstu deild.

39. Freyr Brynjarsson

 • Lið: Valur (2000-05), Haukar (2005-13)
 • Staða: Vinstra horn
 • Fæðingarár: 1977
 • Íslandsmeistari: 2005, 2008, 2009, 2010
 • Bikarmeistari: 2010, 2012
 • Deildarmeistari: 2005, 2009, 2010, 2012, 2013
 • Silfur: 2001, 2004, 2013
 • Leikir í efstu deild: 289
 • Mörk í efstu deild: 724
 • Leikir í úrslitakeppni: 59
 • Mörk í úrslitakeppni: 129

Freyr Brynjarsson er orðabókarskilgreiningin á traustum liðsmanni og sennilega besti handboltamaðurinn sem hefur komið frá Suðurnesjum. 

Eftir tvö silfur með Val gekk Freyr í raðir Hauka um mitt tímabil 2004-05 sem reyndist heillaskref fyrir alla. Hann varð Íslandsmeistari með Haukum 2005, síðan komu tvö titlalaus tímabil áður en Aron Kristjánsson sneri aftur heim og tók við liðinu 2007. Undir hans stjórn urðu Haukar Íslandsmeistarar þrjú ár í röð og einu sinni bikarmeistari og tvisvar sinnum deildarmeistarar að auki.

Freyr Brynjarsson vann heilan helling af titlum á flottum ferli.vísir/vilhelm

Freyr var í lykilhlutverki í þessu Haukaliði; góður í sókn og enn betri í vörn. Hann lék oft fyrir framan í harðskeyttri 3-2-1 vörn Hauka í úrslitakeppninni 2010, meðal annars í oddaleiknum gegn Val í úrslitaeinvíginu.

Freyr vann alls ellefu stóra titla með Haukum og lék tæplega 350 leiki í deild og úrslitakeppni á tímabilinu sem er undir í þessari umfjöllun. 

Hápunkturinn á ferli Freys kom samt á síðustu öld, þegar hann skoraði jöfnunarmarkið fræga í kærubikarúrslitaleik Vals og Fram. En sú saga á skilið heila heimildarmynd.

38. Einar Örn Jónsson

 • Lið: Haukar (2000-02, 2008-11)
 • Staða: Hægra horn
 • Fæðingarár: 1976
 • Íslandsmeistari: 2001, 2009, 2010
 • Bikarmeistari: 2001, 2002, 2010
 • Deildarmeistari: 2002, 2009, 2010
 • Leikir í deild: 105
 • Mörk í deild: 281
 • Leikir í úrslitakepni: 28
 • Mörk í úrslitakeppni: 81

Talandi um leikmann sem tók þátt í kærubikarúrslitaleiknum og fór svo frá Val til Hauka. Og líkt og hjá Frey reyndust skiptin frábær fyrir Einar Örn Jónsson og Hauka.

Einar var í lykilhlutverki hjá Haukum tímabilin 2000-01 og 2001-02 þar sem liðið vann fjóra af þeim sex stóru titlum sem í boði voru. Haukar komust einnig langt í Evrópukeppni 2000-01 og á leiðinni þangað skoraði Einar frægt sigurmark gegn Sporting á Ásvöllum.

Einar Örn Jónsson átti sín bestu ár í Haukum.fréttablaðið

Frammistaðan hjá Haukum skilaði Einari landsliðssæti og farseðli í atvinnumennskuna. Þegar hann sneri heim úr henni fór hann aftur í Hauka og tók upp þráðinn við að vinna titla, meðal annars þrennuna 2009-10.

Einar nýtti færin sín afburðavel úr hægra horninu, var áræðinn og yfirvegaður í öllum sínum aðgerðum og bjó sér til gríðarlega flottan feril.

37. Gunnar Berg Viktorsson

 • Lið: Fram (2000-01), Haukar (2007-2010)
 • Staða: Vinstri skytta
 • Fæðingarár: 1976
 • Íslandsmeistari: 2008, 2009, 2010
 • Bikarmeistari: 2010
 • Deildarmeistari: 2009, 2010
 • Valdimarsbikar: 2008
 • Besti varnarmaður: 2010
 • Leikir í deild: 86
 • Mörk í deild: 231
 • Leikir í úrslitakeppni: 15
 • Mörk í úrslitakeppni: 45

Ef þú óðst inn í Haukavörnina á árunum 2007-10 gerðirðu það á eigin ábyrgð. Þar buðu nefnilega Eyjamennirnir Gunnar Berg Viktorsson og Arnar Pétursson þig velkominn í veröld sársaukans eins og Walter í The Big Lebowski talaði svo oft um. Ef svo ólíklega vildi til að þú skoraðir fékkstu allavega marblett.

Það var með öðrum orðum ekki að ástæðulausu að Rúnar Kárason, þáverandi leikmaður Fram, líkti Haukum við Bad Boys lið Detroit Pistons. Haukar tóku þessari samlíkingu fagnandi og spiluðu Bad Boys lagið fyrir leiki í úrslitakeppninni 2009.

Gunnar Berg Viktorsson lauk ferlinum með Haukum og varð meðal annars Íslandsmeistari þrjú ár í röð með liðinu.fréttablaðið

Gunnar Berg og Arnar voru ekki bara harðir í horn að taka heldur einnig frábærir í vörn og grunnurinn sem Haukar byggðu á til að koma sér aftur á sigurbraut eftir tvö titlalaus ár (2006-07). Á árunum 2008-10 unnu Haukar sex af þeim átta stóru titlum sem í boði voru, þar á meðal þrefalt 2010.

Auk þess að vera í risahlutverki í vörn Hauka lét Gunnar Berg einnig til sín taka í sókninni. Þar var hann oft í því óeigingjarna hlutverki að spila hægra megin fyrir utan þrátt fyrir að vera rétthentur en leysti það með sóma.

36. Magnús Óli Magnússon

 • Lið: FH (2011-15), Valur (2017-)
 • Staða: Vinstri skytta/leikstjórnandi
 • Fæðingarár: 1992
 • Íslandsmeistari: 2021, 2022
 • Bikarmeistari: 2021, 2022
 • Deild: 2020, 2022
 • Silfur: 2012
 • Valdimarsbikar: 2022
 • Leikir í deild: 183
 • Mörk í deild: 739
 • Leikir í úrslitakeppni: 31
 • Mörk í úrslitakeppni: 149

Líklega væri hægt að nýta kraftinn í líkama Magnúsar Óla Magnússonar sem orkugjafa fyrir bíla eða hita upp hús. Enda einn allra, allra kraftmesti leikmaður sem hefur spilað í deildinni hér heim og einn besti gegnumbrotsmaður hennar frá upphafi.

Magnús Óli átti fín ár með FH en náði fyrst almennilegu flugi þegar hann kom í Val 2017. Liðinu vegnaði hins vegar ekkert sérstaklega fyrst eftir að hann kom á Hlíðarenda en það breyttist síðan svo um munaði.

Magnús Óli Magnússon í kunnuglegri stöðu, að skilja óheppinn varnarmann eftir í reyk.vísir/hulda margrét

Undanfarin tvö ár hefur Valur verið með langbesta lið landsins og unnið allt sem hægt er að vinna. Leikjum Magnúsar Óla hefur hins vegar fækkað talsvert enda mikið meiddur.

Valsliðið er samt alltaf betra með hann innanborðs og stigin í riðlakeppni Evrópudeildarinnar væru eflaust fleiri ef hann hefði getað beitt sér að fullu. Hæfileikar hans koma nefnilega bersýnilega í ljós þegar hann spilar gegn betri leikmönnum sem hann stenst fyllilega snúning.


Tengdar fréttir

Fimmtíu bestu: 45.-41. sæti

Hér er farið yfir þá leikmenn sem enduðu í 45.-41. sæti í valinu á bestu leikmönnum í efstu deild karla í handbolta á þessari öld.

Fimmtíu bestu: 50.-46. sæti

Hér er farið yfir þá leikmenn sem enduðu í 50.-46. sæti í valinu á bestu leikmönnum í efstu deild karla í handbolta á þessari öld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×