Árið 2022 var víða erfitt á mörkuðum og einkenndist af mikilli verðbólgu og hækkandi vöxtum. Á sama tíma hafa dökkar efnahagshorfur á heimsvísu dregið úr væntingum fjárfesta.
Farið er yfir stöðuna í nýrri Hagsjá Landsbankans en vísitala Aðallista Kauphallarinnar lækkaði um 2,6% í desember og 0,4% í nóvember. Vísitalan hækkaði einungis yfir þrjá mánuði ársins og lækkaði hina níu mánuðina. Að sögn hagfræðideildar Landsbankans stýrðist verðþróunin á Íslandi að miklu leyti af verðþróuninni á erlendum mörkuðum og er viðbúið að hún verði áfram fyrir miklum áhrifum af þróun á öðrum hlutabréfamörkuðum.
Víðast hvar rauðar tölur
Fram kemur í hagsjá Landsbankans að langflestir erlendir hlutabréfamarkaðir hafi lækkað á síðasta ári og jafn almennar lækkanir hafi ekki sést frá árinu 2018. Bandaríski markaðurinn lækkaði um 19,4% í fyrra sem var mesta lækkun frá því í fjármálakreppunni 2008 og 2009. Hið sama á við um fleiri markaði á borð við þann hollenska, sænska og svissneska.
Mestu lækkanir í fyrra voru á mörkuðum í Rússlandi (-39,2%), Þýskalandi (-25,6%) og Svíþjóð (-24,6%). Hlutabréfamarkaðir á evrusvæðinu lækkuðu um 14,4% og um 20,5% í löndum Evrópusambandsins.
Alvotech og Origo hástökkvarar ársins
Þegar horft er til íslenska hlutabréfamarkaðsins þá hækkaði Alvotech mest félaga á Aðallista Kauphallarinnar eða um 68% þegar félagið kom nýtt inn á listann í desember. Næst mest hækkaði Origo, eða um 15,8%, en þar á eftir kom Nova Klúbburinn með 9,1% hækkun. Af þeim tuttugu félögum á Aðallistanum sem komu ekki ný inn á markaðinn í fyrra var besta ávöxtunin hjá Origo sem hækkaði um 37,5% á árinu.
Mest lækkaði Iceland Seafood, eða um 59,1%, en þar á eftir kom Marel með 43,9% lækkun. Þriðja mesta lækkunin var í Kviku banka sem fór niður um 29,1%.