Handbolti

Þjálfari Dana segir Íslendinga vera með frábært lið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikolaj Jacobsen er á leið á sitt sjöunda stórmót með danska landsliðið.
Nikolaj Jacobsen er á leið á sitt sjöunda stórmót með danska landsliðið. getty/Jan Christensen

Þjálfari danska handboltalandsliðsins, Nikolaj Jacobsen, segir íslenska landsliðið vera frábært og hefur mikla trú á því á HM sem hefst eftir viku.

Í samtali við TV2 fóru þeir Jacobsen og Mathias Gidsel, ein skærasta stjarna Dana, yfir það hvaða lið væru líklegust til afreka á HM.

„Ísland er með frábært lið og með leikmenn sem verða saman næstu árin,“ sagði Jacobsen sem tók við danska landsliðinu af Guðmundi Guðmundssyni 2017. Undir hans stjórn urðu Danir heimsmeistarar 2019 og 2021 og komust í úrslit á Ólympíuleikunum í Tókýó 2021.

„Ég tel að fimm lið geti orðið heimsmeistarar. Þar á meðal eru kunnugleg nöfn eins og Spánn, Frakkland og Svíþjóð,“ sagði Jacobsen ennfremur.

Gidsel nefndi einnig Spánverja, Frakka og Svía, auk Dana og Íslendinga sem hann segir að gætu gert bestu liðum heims skráveifu á mótinu.

„Þið ættuð að fylgjast með íslensku vinum okkar þar sem tveir leikmenn frá Magdeburg eru fremstir í flokki. Þeir hafa spilað frábærlega að undanförnu,“ sagði Gidsel og vísaði þar til þeirra Ómars Inga Magnússonar og Gísla Þorgeirs Kristjánssonar.

Danir eru í H-riðli heimsmeistaramótsins ásamt Belgum, Túnisum og Bareinum sem Aron Kristjánsson stýrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×