Viðskipti erlent

Laus gegn tug milljarða tryggingu sakaður um sögu­leg fjár­svik

Kjartan Kjartansson skrifar
Sam Bankman-Fried leiddur út úr dómshúsi á Manhattan í gær. Foreldrar hans veðsettu húsið sitt til þess að fá hann lausan gegn tryggingu. Hann verður með öklaband í stofufangelsi fram að réttarhöldunum í málinu gegn honum.
Sam Bankman-Fried leiddur út úr dómshúsi á Manhattan í gær. Foreldrar hans veðsettu húsið sitt til þess að fá hann lausan gegn tryggingu. Hann verður með öklaband í stofufangelsi fram að réttarhöldunum í málinu gegn honum. AP/Julia Nikhinson

Umdæmisdómstóll í New York féllst á að sleppa Sam Bankman-Fried, stofnanda rafmyntafyrirtækisins FTX, úr varðhaldi gegn himinhárri tryggingu í gær. Saksóknari sakaði Bankman-Fried um að hafa framið fjársvik af sögulegri stærðargráðu.

Bankman-Fried er ákærður fyrir fjársvik, peningaþvætti og ólögleg kosningaframlög. Hann var framseldur frá Bahamaeyjum, þar sem FTX var með höfuðstöðvar, til Bandaríkjanna á miðvikudag. 

Eftir að hann kom fyrir dómara í New York í gær gekk hann út úr dómshúsinu með foreldrunum sínum eftir að þeir féllust á að skrifa undir 250 milljón dollara tryggingu, jafnvirði tæpra 36 milljarða íslenskra króna. Foreldrar Bankman-Fried, sem er þrítugur, samþykktu einnig að halda honum í stofufangelsi heima hjá sér í Kaliforníu á meðan hann bíður réttarhalda.

AP-fréttastofan segir að dómari hafi meðal annars fallist á að veita honum lausn gegn tryggingu vegna þess að hann samþykkti sjálfur að vera framseldur til heimalandsins. Nicolas Roos, saksóknari í málinu, sagðist telja að tryggingaféð væri það hæsta í alríkismáli til þessa. Hann sagði ennfremur að svikin sem Bankman-Fried hefði framið gegn fjárfestum og viðskiptavinum FTX væru af sögulegri stærðargráðu.

Svikin sem Bankman-Fried er ákærður fyrir tengjast gjaldþroti FTX í síðasta mánuði. Hann er meðal annars sakaður um að hafa tekið milljarða dollara af innistæðum viðskiptavina kauphallarinnar, sem var sú þriðja stærsta sinnar tegundar í heiminum, til þess að halda vogunarsjóði sínum á floti.

Tveir nánir samstarfsmenn hans hafa þegar játað sig seka um glæpi og vinna nú með saksóknurum að rannsókn málsins. Bankman-Fried á yfir höfði sér áratugalanga fangelsisvist verði hann fundinn sekur. Hann hefur sjálfur neitað því að hafa brotið nokkuð af sér.


Tengdar fréttir

Raf­mynta­mógúllinn fluttur með fanga­flugi til New York

Sam Bankman-Fried, stofnandi rafmyntafyrirtækisins FTX, lenti í New York til að svara til saka í einu stærsta fjársvikamáli Bandaríkjanna í nótt eftir að hann var framseldur frá Bahamaeyjum. Tveir samstarfsmenn hans hafa þegar játað sig seka um glæpi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×