Viðskipti innlent

„Kærustu­para­sæti“ í nýjum lúxus­bíó­sal Kringlunnar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sæti svipuð þeim og verða í boði í nýjum lúxusbíósal Kringlunnar.
Sæti svipuð þeim og verða í boði í nýjum lúxusbíósal Kringlunnar. Ferco

Í nýjum lúxusbíósal Kringlunnar verða í boði svokölluð „kærustuparasæti“ þar sem tveir geta setið saman og notið myndarinnar. Framkvæmdastjóri SamFilm segist ekki hafa áhyggjur af því að fólk fari að gera vel hvort að öðru í sætunum. 

Von er á að nýr bíósalur Kringlunnar verði opnaður í janúar. Í salnum verða þrjár týpur af sætum og pláss fyrir allt að áttatíu manns. Um er að ræða besta lúxussal landsins að sögn Alfreðs Ásbergs Árnasonar, framkvæmdastjóra SamFilm, sem rekur bíóið í Kringlunni. 

Fremst í salnum verða einhverskonar bekkir sem gestir hálfpartinn liggja í. Þá verða einnig hefðbundin lúxussæti með hita og stillanlegum höfuðpúða.

Þriðja týpan er nýjung á Íslandi, parasæti eða eins og það eru oft kölluð erlendis „kærustuparasæti“. Í þeim er pláss fyrir tvo einstaklinga, sem þurfa að sjálfsögðu ekki að vera kærustupar eða par yfir höfuð. Aðspurður segist Alfreð ekki óttast að pör fari að gera vel hvort að öðru í sætunum. 

„Nei nei, ég held að það sé ekkert vandamál. Ég held að það séu bara prúðir bíógestir. Þetta er siðmenntað þjóðfélag,“ segir Alfreð í samtali við fréttastofu. 

Salurinn sjálfur verður einn sá fullkomnasti á Íslandi. Í honum verður Dolby Atmos-hljóðkerfi sem er eitt það besta í heiminum. 

„Í öðrum sölum eru sætin lúxus en ekki hljóð og mynd. Það verður þó allt lúxus í þessum sal. Alla leið,“ segir Alfreð. 

Hér fyrir neðan má sjá myndband um nýja salinn sem Kringlan framleiddi og sýndi hér á Vísi. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×