Körfubolti

Einhenti strákurinn skoraði sína fyrstu körfu í háskólakörfuboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hansel-Emmanuel á ferðinni með boltann en hann lætur fötlun sína ekki stoppa sig við að upplifa drauma sína í körfuboltanum.
Hansel-Emmanuel á ferðinni með boltann en hann lætur fötlun sína ekki stoppa sig við að upplifa drauma sína í körfuboltanum. Getty/John Jones

Hansel Enmanuel vakti mikla athygli þegar hann var að spila með gagnfræðisskólanum sínum en nú er hann farinn að minna á sig í háskólakörfuboltanum.

Enmanuel sýndi frábær tilþrif með Life Christian Academy gagnfræðisskólanum með flottum troðslum, góðum sendingum og íþróttahæfileikum sínum. Ástæðan fyrir því að tilþrif hans fóru á flug á netmiðlum var það að hann hefur bara eina hendi.

Enmanuel missti aðra hendina sex ára gamall þegar veggur datt á hann en strákurinn losnaði ekki fyrr en tveimur tímum síðar. Hann var hins vegar ekki tilbúinn að gefa upp körfuboltadrauminn sinn.

Enmanuel fékk skólastyrk hjá Northwestern State skólanum og um helgina skoraði hann sína fyrstu körfu í bandaríska háskólaboltanum.

Enmanuel kom inn á undir lokin á móti UL Monroe og skoraði fimm stig á átta mínútum. Northwestern vann leikinn á endanum 91-73. Enmanuel hafði komið við sögu í fjórum öðrum leikjum án þess að ná að skora.

Hann skoraði tvær flottar körfur í leiknum um helgina, fyrst með því að keyra upp að körfunni og svo með því að taka sóknarfrákast eftir vitaskot og troða boltanum í körfuna.

Liðsfélagar Enmanuel fögnuðu vel körfunum hans eins og sjá má á myndböndunum hér í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×