Handbolti

Benidorm galopnaði Valsriðilinn með sigri gegn Kristjáni og félögum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristján Örn skoraði eitt mark fyrir PAUC í kvöld.
Kristján Örn skoraði eitt mark fyrir PAUC í kvöld. Twitter@pauchandball

Benidorm vann óvæntan eins marks sigur er liðið tók á móti franska liðinu PAUC í B-riðli Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld, 33-32.

Gestirnir í PAUC byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu fimm mörk leiksins. Liðið hélt fimm marka forystu sinni lengst af í fyrri hálfleik, en heimamenn náðu að jafna metin fyrir hálfleikshléið áður en PAUC skoraði seinasta mark hálfleiksins og staðan því 17-18 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik og gestirnir héldu forystunni til að byrja með. Benidorm komst þó yfir í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 25-24 og vann að lokum mikilvægan eins marks sigur, 33-32.

Benidorm situr nú ú fimmta sæti riðilsins með fjögur stig eftir sex leiki, tveimur stigum minna en PAUC sem situr í öðru sæti riðilsins. Kristján Örn Kristjánsson kom lítið við sögur í liði PAUC í kvöld og skoraði aðeins eitt mark.

Þá mátti svissneska liðið Kadetten Schaffhausen þola fimm marka tap er liðið tók á móti Göppingen frá Þýskalandi í A-riðli, 30-35. Staðan var jöfn í hálfleik, 17-17, en Þjóðverjarnir sigldu fram úr í síðari hálfleik og unnu að lokum mikilvægan sigur. 

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði þrjú mörk fyrir Kadetten í kvöld. Liðið situr nú í þriðja sæti riðilsins með átta stig eftir sex leiki, líkt og Göppingen sem situr í öðru sæti.

Að lokum þurfti Íslendingalið Alpla Hard að sætta sig við eins marks tap gegn Balatonfuredi í botnslag C-riðils, 27-26. Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði eitt mark fyrir Alpla Hard sem situr á botni riðilsins með eitt stig, tveimur stigum minna en Balatonfuredi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×