Handbolti

Öruggur Meistaradeildarsigur Bjarka og félaga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson og félagar hans í Veszprem eru í góðum málum í A-riðli Meistaradeildarinnar.
Bjarki Már Elísson og félagar hans í Veszprem eru í góðum málum í A-riðli Meistaradeildarinnar. Veszprem

Bjarki Már Elísson og félagar hans í Telekom Veszprém unnu öruggan tíu marka sigur er liðið tók á móti Wisla Plock í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld, 32-22.

Bjarki og félagar eru í harðri baráttu við PSG og Íslendingalið Magdeburg um efstu þrjú sæti A-riðils Meistaradeildarinnar og sigurinn í kvöld styrkti stöðu liðsins í öðru sætinu. Efstu tvö sæti riðilsins gefa beint sæti í átta liða úrslit keppninnar, en liðin sem hafna í 3.-6. sæti fara í 16-liða úrslit.

Heimamenn í Veszprém leiddu með átta mörkum í hálfleik og sigurinn var því í raun aldrei í hættu. Liðið vann að lokum afar öruggan tíu marka sigur, 32-22, en Bjarki Már skoraði eitt mark fyrir liðið.

Veszprém situr líkt og fyrr segir í öðru sæti A-riðils með 15 stig eftir níu leiki, einu stigi minna en topplið PSG og þremur stigum meira en Magdeburg í þriðja sætinu.

Þá var landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson ekki í leikmannahóp Nantes vegna meiðsla er liðið heimsótti Kiel. Nantes mátti þola fjögurra marka tap, 37-33, og situr í þriðja sæti B-riðils með 12 stig, fjórum stigum meira en Kiel sem situr í fjórða sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×