Körfubolti

Gömul NBA stjarna handtekin fyrir að reyna að stinga fólk af handahófi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ben Gordon í leik með liði Chicago Bulls í febrúar 2007. 
Ben Gordon í leik með liði Chicago Bulls í febrúar 2007.  Getty/Bob Leverone

Gamli NBA leikmaðurinn Ben Gordon glímir við mikil vandamál þessa dagana og hvað eftir annað þarf lögreglan að hafa afskipti af honum.

Gordon var nú síðast handtekinn í þriðja sinn á tveimur mánuðum en ástæðan sýnir kannski hversu staðan á honum er slæm.

Gordan var handtekinn eftir að hann reyndi að stinga fólk af handahófi með saumanálum. Hann var fluttur á sjúkrahús í Harlem.

Gordon hefur tjáð sig um sín andlegu veikindi og nú þarf hann augljóslega á hjálp að halda.

Í október var hann sakaður um að slá tíu ára son sinn á almannafæri á flugvelli í New York City.

Mánuði síðar var hann handtekinn fyrir að slá tvo öryggisverði á McDonalds í Chicago eldsnemma um morgun. Öryggisverðirnir voru að fylgja Gordon út af staðnum en ekki er vita vegna hvers.

Ben Gordon lék í ellefu tímabil í NBA-deildinni með liðum Chicago Bulls, Detroit Pistons, Charlotte Bobcats og Orlando Magic. Hann lagði skóna á hilluna eftir 2014-15 tímabilið.

Gordon var með 14,9 stig að meðaltali í leik í 744 leikjum á NBA-ferlinum en á sinni bestu leiktíð, 2008-09 með Chicago Bulls, skoraði hann 20,7 stig í leik og spilaði þá alla 82 leikina.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×