Umfjöllun: Ferencváros - Valur 33-33 | Valsmenn köstuðu frá sér sigrinum í Búdapest

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stiven Tobar Valencia skoraði tíu mörk úr ellefu skotum.
Stiven Tobar Valencia skoraði tíu mörk úr ellefu skotum. vísir/vilhelm

Valur gerði 33-33 jafntefli við Ferencváros í B-riðli Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld. Ungverjarnir jöfnuðu metin með marki úr vítakasti eftir að leiktíminn var runninn út.

Valur er í 4. sæti B-riðils með fimm stig, tveimur stigum á undan Ferencváros sem er í 5. sætinu. Næsti leikur Vals er gegn Svíþjóðarmeisturum Ystad eftir viku.

Valsmenn byrjuðu leikinn illa en náðu undirtökunum seinni hluta fyrri hálfleiks og leiddu með fjórum mörkum að honum loknum, 14-18. Þeir héldu áfram þar sem frá var horfið í seinni hálfleik og komust mest sjö mörkum yfir.

En líkt og gegn PAUC fyrir viku gaf Valur alltof mikið eftir á lokakaflanum. Ungverjarnir söxuðu á forskotið og jöfnuðu svo í 32-32. Þeir fengu tækifæri til að komast yfir en Bence Nagy fékk dæmdan á sig ruðning.

Arnór Snær Óskarsson kom Val yfir, 32-33. Ferencváros fór í sókn og Kristóf Csörgo fiskaði víti. Bendegúz Bujdosó leyfði tímanum að renna út og skoraði svo úr vítinu. Lokatölur 33-33.

Arnór Snær Óskarsson var nálægt því að tryggja Val sigur.vísir/hulda margrét

Fyrirfram hefðu flestir Valsmenn sætt sig við eitt stig á útivelli gegn einu sterkasta liði Ungverjalands. En úr því sem komið gráta Íslands- og bikarmeistararnir tapað stig.

Stiven Tobar Valencia átti frábæran leik og skoraði tíu mörk úr ellefu skotum. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði átta mörk og bróðir hans, Arnór Snær, fimm. Björgvin Páll Gústavsson varði tuttugu skot (38 prósent), flest í fyrri hálfleik.

Valsmenn skoruðu þrettán mörk úr hraðaupphlaupum í leiknum, þar af tíu í fyrri hálfleik. Uppstilltur sóknarleikur gekk misvel og Benedikt vantaði sárlega meiri hjálp.

Fyrrverandi atvinnumennirnir Aron Dagur Pálsson og Róbert Aron Hostert áttu báðir ömurlegan leik og voru með samtals þrjú mörk úr fjórtán skotum. Þá voru Magnús Óli Magnússon og Vignir Stefánsson ekki með.

Róbert Aron Hostert skoraði eitt mark úr sex skotum.vísir/hulda margrét

Alex Bognár skoraði sjö mörk fyrir Ferencváros og Dávid Debreczeni fimm. Kristóf Gyori varði sextán skot (36 prósent) og Ádám Borbély átti svo frábæra innkomu og varði sex af þeim tíu skotum sem hann fékk á sig.

Fyrri hálfleikur var kaflaskiptur. Gyori var í miklum ham fyrri hluta fyrri hálfleiks og varði hvert dauðafærið frá leikmönnum Vals á fætur öðru. Sem betur fer fyrir Valsmenn nýttu Ungverjarnar sér markvörslu Gyori ekki nógu vel og komust aldrei meira en þremur mörkum yfir.

Vörn Vals var full opin framan af leik og Ferencváros fékk alltof oft dauðafæri á línunni. Þá var uppstilltur sóknarleikur Valsmanna ekki burðugur.

Í stöðunni 11-9 tók Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, leikhlé. Eftir það þéttist varnarleikur Valsmanna til muna og Björgvin gaf enn meira í markinu. Hann varði þrettán skot í fyrri hálfleik, eða 48 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

Leikhlé Snorra Steins Guðjónssonar um miðbik fyrri hálfleiks breytti leiknum.vísir/hulda margrét

Eftir leikhléið kom 6-1 kafli hjá Val sem komst í 12-15. Finnur Ingi Stefánsson sá svo til þess að Valsmenn færu með fjögurra marka forskot til búningsherbergja þegar hann skoraði lokamark fyrri hálfleiks, 14-18.

Eins og í fyrri leiknum keyrðu Valsmenn miskunnarlaust í bakið á Ungverjunum og skoruðu tíu mörk eftir hraðaupphlaup. Það var líka eins gott því uppstilltur sóknarleikur Vals var ekki nógu beittur. Stiven var markahæstur Valsmanna í fyrri hálfleik með sex mörk.

Hann skoraði svo fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiks og Valur komst í 14-21. Valsmenn héldu áfram að hamra járnið meðan það var heitt og voru með frábær tök á leiknum. Og þegar tuttugu mínútur voru eftir munaði sjö mörkum á liðunum, 19-26. Á þessum tuttugu mínútum skoraði Valur hins vegar aðeins sjö mörk.

Leikur Ferencváros lagaðist umtalsvert eftir þessa frábæru byrjun Vals en þegar tólf mínútur voru eftir var munurinn samt fimm mörk, 24-29.

Benedikt Gunnar Óskarsson sýndi mikinn þroska í leiknum.vísir/hulda margrét

Borbély var þarna kominn inn á og hann sneri leiknum fyrir sína menn. Ungverjarnir skoruðu fjögur mörk í röð og minnkuðu muninn í eitt mark, 28-29. Valsmenn héngu á forskotinu í nokkrar mínútur en Dániel Füzi minnkaði svo muninn í 32-32 eftir að Aron Dagur brenndi af dauðafæri.

Eftir þetta skaut Agnar Smári Jónsson í stöng og Ferencváros stóð eftir með pálmann í höndunum. Istvan Pastzor, þjálfari ungverska liðsins, tók leikhlé þegar mínúta var eftir en að því loknu tapaði Nagy boltanum klauflega.

Arnór Snær kom Val yfir, 32-33, en Ferencváros dreif sig strax í sókn. Ungverjarnir tóku ólöglega miðju og fengu svo afar hæpið víti. Bujdosó sýndi stáltaugar, skoraði og tryggði Ferencváros stig. Lokatölur 33-33.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira