Investec South African mótið er hluti af Evrópumótaröðinni í golfi en Guðmundur Ágúst tryggði sér fullan keppnisröð á Evrópumótaröðinni fyrir skömmu en hann er aðeins annar Íslendingurinn sem nær þeim áfanga, sá fyrri var Birgir Leifur Hafþórsson árin 2006 og 2007.
Mótið er annað mótið sem Guðmundur Ágúst tekur þátt í á mótaröðinni en fyrsta mótið fór fram í síðustu viku, einnig í Jóhannesarborg. Þar lék Guðmundur Ágúst á 6 höggum yfir pari samtals á fyrstu tveimur keppnisdögunum og komst ekki í gegnum niðurskurð.
Investec South African mótið hófst á fimmtudag og lék Guðmundur fyrsta hringinn á 72 höggum sem er par vallarins. Hann hafði svo leikið sex holur á öðrum hring þegar keppni var frestað vegna veðurs en þá var hann á einu höggi undir pari. Þá var hann fyrir ofan niðurskurðarlínuna og því á leið áfram eins og staðan var þá.
Keppni hélt síðan áfram í morgun og eftir að hafa náð pari á þremur fyrstu holunum fékk hann tvo skolla í röð og féll niður fyrir niðurskurðarlínuna. Guðmundur lauk síðan keppni á einu höggi undir pari en það dugði ekki til þess að halda áfram keppni á hring þrjú og fjögur þar sem aðeins þeir kylfingar sem léku á tveimur höggum undir pari eða betur komust áfram.