Golf

Guð­mundur annar í sögunni til að ná inn á Evrópu­móta­röðina

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Ágúst Kristjánsson á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina. Getty/Angel Martinez

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, kylfingur úr GKG, náði frábærum áfanga á Spáni í dag þegar hann tryggði sig inn á Evrópumótaröðina í golfi eftir sex daga lokaúrtökumót.

Guðmundur Ágúst þurfti að ná að verða á meðal 25 efstu á lokaúrtökumótinu til að komast inn á sterkustu mótaröð Evrópu. Hann var í góðri stöðu fyrir lokahringinn í dag, í 16.-19. sæti, og er í 19.-22. sæti þegar þetta er skrifað á samtals -18 höggum eftir sex hringi.

Ljóst er að Guðmundur endar ekki neðar en í 22. sæti og hann er því kominn inn á Evrópumótaröðina, sem kölluð er DP World Tour.

Aðeins einn Íslendingur hafði áður komist í gegnum lokaúrtökumótið og inn á Evrópumótaröðina en það gerði Birgir Leifur Hafþórsson árin 2006 og 2007.

Þetta var í annað sinn sem að Guðmundur Ágúst kemst inn á lokaúrtökumótið en árið 2019 komst hann ekki í gegnum niðurskurðinn eftir fjórða keppnishringinn.

Bjarki Pétursson úr GKG komst einnig á lokaúrtökumótið en féll úr keppni eftir fjóra hringi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×