Umfjöllun: ÍBV - Valur 33-38 | Valur sótti tvö stig til Eyja

Hjörvar Ólafsson skrifar
valur hulda
VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslandsmeistarar Vals unnu góðan sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum í dag þegar liðin mættust í Olís-deild karla. Lokatölur í leiknum urðu 33-38 Valsmönnum í vil.

Það voru gestirnir frá Hlíðarenda sem hófu leikinn af meiri krafti en heimamenn voru flatir í varnarleiknum og stirðir í sóknarleiknum framan af leik. 

Valur byggði upp þægilegt forskot en um miðbik fyrri hálfleiks munað sjö mörkum þegar staðan var orðin 12-5 gestunum í vil.

Eyjamenn eru hins vegar ekki þekktir fyrir að leggja árar í bát og á lokakafla fyrri hálfleiksins þéttu leikmenn ÍBV vörn sína og Petar Jokanovic klukkaði nokkra boltan. 

Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var Valur með tveggja marka forystu, 19-17, og þrátt fyrir að ÍBV hafi búið til smá spennu í seinni hálfleik voru Valsmenn þremur til fjórum mörkum yfir lungann úr seinni hálfleik. 

Niðurstaðan fagmannlegur fimm marka sigur Vals en ekki kom að sök að Magnús Óli Magnússon, Róbert Aron Hoster og Tjörvi Týr Gíslason væru ekki í leikmannahópi liðsoins í þessum leik.  

Bergur Elí Rúnarsson nýtti tækifærið sem hann fékk í þessum leik afar vel en hann var markahæsti leikmaður með átta mörk úr þeim tíu skotum sem hornamaðurinn tók. 

Hjá ÍBV var Dánjal Ragnarsson atkvæðamestur með sjö mörk en Gabríel Martinez Róbertsson kom næstur með sex mörk. Kári Kristjàn Kristjánsson og Theódór Sigurbjörnsson voru á meiðslalistanum hjá ÍBV.

Valur hefur nú sex stiga forskot á FH á toppi deildarinnar en ÍBV situr í fjórða sæti, tveimur stigum á eftir Hafnarfjarðarliðinu.  

Af hverju vann Valur?

Það var í raun góð byrjun Valsliðsins sem lagði grunninn að þessum sigri og í hvert skipti sem ÍBV hótaði áhlaupi var sóknarleikurinn skynsamaur hjá liðinu. Þá skipti það einnig sköpum að Björgvin Páll Gústavsson varði 12 skot í leiknum, nokkur þeirra á mikilvægum augnablikum. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Eins og áður sagði var Bergur Elí góður í horninu hjá Val en skotnýtin hans var til fyrirmyndar. Þá voru bræðurnir Aron Snær og Benedikt aðsópsmiklir að vanda. Dánjal kom með góða innkomu inn í sóknarleik Eyjamenna og Gabríel Martinez var flottur. 

Hvað gekk illa?

Eyjamenn töpuðu allt of mörgum boltum í þessum leik og mörgum þeirra undir lítilli sem engri pressu. Sóknarleikurinn var afleitur framan af en skánaði eftir því sem leið á leikinn. 

Hvað gerist næst?

ÍBV leikur tvo leiki við HC Dukla Praha í Prag í Tékklandi í EHF-keppninni laugardaginn 10. desember og sunnudaginn 11. desember. 

Valsmenn halda í ferðalag á morgun til Búdapestar í Ungverjalandi en liðið mun mæta Ferencvaros í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á þriðjudaginn kemur.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.