Körfubolti

Barkley útskýrir af hverju Jordan hætti að tala við hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Jordan og Charles Barkley voru miklir vinir og spiluðu reglulega golf saman.
Michael Jordan og Charles Barkley voru miklir vinir og spiluðu reglulega golf saman. getty/Jeff Kravitz

Michael Jordan og Charles Barkley voru miklir vinir í eina tíð en núna eru tíu ár síðan þeir töluðust við. Í viðtali við Bleacher Report fer Barkley yfir ástæðu þess að Jordan hætti að tala við hann.

Jordan er eigandi Charlotte Hornets í NBA-deildinni og samkvæmt Barkley tók Jordan því illa þegar hans gamli vinur gagnrýndi ákvarðanir hans.

„Þetta er mjög óheppileg staða fyrir okkur. En ég mun sinna mínu starfi. Ég get ekki gagnrýnt aðra þjálfara og framkvæmdastjóra en sleppt honum því hann er besti vinur minn. Ég get ekki gert það,“ sagði Barkley.

„Ég sagði að Michael yrði að vera með betra fólk í kringum sig og ég óttast að hann muni ekki ná árangri.“

Barkley segir að Jordan hafi reiðst vegna þessara ummæla og þeir hafi ekki talað saman síðan hann lét þau falla. Barkley bjóst ekki við að þessi deila myndi dragast jafn lengi á langinn eins og raun ber vitni.

„Ég hélt að þetta myndi líða hjá en hann er þrjóskur og ég líka,“ sagði Barkley og bætti við að hann væri meira en til í að grafa stríðsöxina og endurnýja vinskapinn við Jordan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×