Handbolti

FH-ingar heiðra Geir Hallsteinsson í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Hallsteinsson.
Geir Hallsteinsson.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verður meðal þeirra sem heiðra munu Geir Hallsteinsson fyrir leik FH og Aftureldingar í Kaplakrika í kvöld.

Geir verður heiðraður fyrir leikinn í kvöld þar sem Íslandsmeistarar FH frá 1984 munu standa heiðursvörð og Friðrik Dór Jónsson mun syngja honum til heiðurs.

Það er búist við góðri mætingu á leik FH og Aftureldingar í Olís deildinni í kvöld enda eru líka margir FH-ingar sem vilja ekki missa af möguleikanum á því að þakka Geir fyrir frábær störf fyrir félagið.

Geir Hallsteinsson lýkur störfum í Kaplakrika um áramót en hann hefur starfað í íþróttahúsinu í Kaplakrika frá opnun þess árið 1990 og því í meira en þrjá áratugi.

Geir er einn fremsti handknattleiksmaður sem Ísland hefur átt og hefur átt sæti í Heiðurshöll ÍSÍ undanfarin sex ár. Geir var fyrsti atvinnumaður Íslands í handbolta og hann var handhafi markamets íslenska landsliðsins í tvo áratugi.

Geir hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar og sem forstöðumaður íþróttahússins í Kaplakrika auk annara starfa í húsinu.

Geir lék 431 leik fyrir FH á sínum ferli og vann sautján stóra titla með FH-liðinu innan og utanhúss. Geir gerði FH að Íslandsmeisturum 1984 og vann að auki fjölda titla sem þjálfari yngri flokka félagsins.

Geir var kosinn íþróttamaður ársins árið 1968. Hann gekk til liðs við Göppingen árið 1973 og varð þá fysti íslenski atvinnumaðurinn í handbolta.

Lék 118 leiki fyrir Íslenska landsliðið og skoraði í þeim 531 mark. Hann lék sinn síðasta landsleik árið 1978 en átti samt markamet landsliðsins allt til ársins 1986 þegar annar FH-ingur, Kristján Arason, sló það.

  • Dagskráin í kvöld:
  • Opið hús í kaffi í veislusal Kaplakrika frá kl. 18
  • Ingvar Viktorsson segir góðar sögur
  • Athöfn á gólfi íþróttahús klukkan 19:15
  • Þeir aðilar sem heiðra Geir við tilefnið eru Hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Viðar Halldórsson formaður FH, Ásgeir Jónsson formaður hkd. FH og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
  • Íslandsmeistarar FH 1984 standa heiðursvörð
  • Friðrik Dór Jónsson syngur lagið “Risar”



Fleiri fréttir

Sjá meira


×