Golf

Veður sett strik í reikninginn en ólíklegt að Guðmundur komist í gegnum niðurskurðinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðmundur Ágúst Kristjánsson er að leika á sínu fyrsta móti á Evrópumótaröðinni í golfi.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson er að leika á sínu fyrsta móti á Evrópumótaröðinni í golfi. Luke Walker/Getty Images

Guðmundur Ágúst Kristjánsson mun að öllum líkindum ekki komast í gegnum niðurskurðinn á sínu fyrsta móti á Evrópumótaröðinni í golfi, Joburg Open, sem hófst í gær. Veður hefur sett strik í reikninginn og aðeins um helmingur kylfinga hefur náð að klára hring dagsins.

Guðmundur átti erfitt uppdráttar í gær þar sem hann lék á 77 höggum, eða á sex höggum yfir pari vallarins. Eftir hringinn í gær sat hann í 151. sæti af 156 keppendum.

Hann hefur þó verið einn af hástökkvurum dagsins og situr nú í 128. sæti ásamt fimm öðrum kylfingum. Þegar þetta er ritað hefur Guðmundur leikið 13 holur af 18 á tveimur höggum undir pari og er því samtals á fjórum höggum yfir pari.

Veður hefur þó sett strik í reikninginn og Guðmundur, líkt og margir aðrir kylfingar, hefur ekki náð að klára hringinn. Þrátt fyrir að enn sé möguleiki á því að Guðmundur nái niðurskurðinum eftir hringinn verður það að teljast ólíklegt þar sem nýjustu upplýsingar spá því að aðeins kylfingar sem hafa leikið á einu höggi undir pari og betra muni komast í gegn. Guðmundur þarf því að ná í fugl á öllum fimm holunum sem hann á eftir til að ná niðurskurðinum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.