Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - KR 91-75 | Keflavík aftur á sigurbraut en staðan svört hjá KR-ingum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Leikmenn Keflavíkur svöruðu vel fyrir tapið í Þorlákshöfn í síðustu umferð deilarinnar með þegar liðið fékk KR í heimsókn í kvöld. 
Leikmenn Keflavíkur svöruðu vel fyrir tapið í Þorlákshöfn í síðustu umferð deilarinnar með þegar liðið fékk KR í heimsókn í kvöld.  Vísir/Bára Dröfn

Keflavík sýndi fagmannlega og stöðuga frammistöðu þegar liðið sigldi í höfn sannfærandi 91-75 sigri í viðureign sinni við sært KR-lið í sjöundu umferð Subway-deildar karla í körfubolta í Blue Car Rental-höllinni í Keflavík í kvöld.

Forskot Keflvíkinga byggðist upp jafnt og þétt í fyrri hálfleik en staðan var 48-26 heimamönnum í vil í hálfleik. Það var engin flugeldasýning sem bjó að baki því að Keflavík væri 22 stigum yfir eftir tvo leikhluta.

Fremur var það afleit skotnýting KR-liðsins, einfaldar körfur Keflavíkurliðsins í bakið á gestunum og þá var frákastabaráttan vægast sagt Suðurnesjaliðinu í vil.

Hörður Axel Vilhjálmsson skilaði fínu framlagi í þessum leik. Vísir/Bára Dröfn

KR náði aldrei að ógna sigri Keflavíkur að neinu ráði og Hjalti Vilhjálmsson, þjálfari heimamanna, gat leyft sér þann munað að dreifa álaginu vel á milli leikmanna liðsins. 

Spilamennska Keflavíkur í Þorlákshöfn í síðustu umferð deildarinnar var einkar kaflaskipt og liðið koðnaði niður á ögurstundu. Að þessu seinni hleyptu Suðurnesjamenn hins vegar KR aldrei á flug og leikurinn varð í raun aldrei spennandi. 

Það er til marks um muninn á varnarleik og sóknarleik liðanna og liðsbrag þeirra að 10 stoðsendingum munaði á milli liðanna og 13 fráköstum. Skotnýtingu beggja liða var ábótavant framan af leik en Keflvíkingar náðu að stilla miðið á meðan leikmenn KR, fyrir utan EC Matthews fundu almennilega fjölina sína á Sunnubrautinni í kvöld. 

Eftir þennan sigur er Keflavík með 10 stig líkt og Breiðablik en liðin sitja í öðru til þriðja sæti einum sigurleik frá Val sem trónir á toppnum. 

KR-ingar eru hins vegar með einn sigur í sjö atrennum og útlit fyrir harða baráttu við Þór Þorlákshöfn, ÍR og mögulega Hött og Grindavík um að forðast fall úr deildinni næsta vor. 

Dagur Kár Jónsson var einn af fáu ljósu punktunum hjá KR. Vísir/Bára DröfnHjalti: Ekki skemmtilegasti leikur sem ég hef séð

„Þó ég sé að sjálfsögðu sáttur við sigurinn og spilamennskuna að einhverju leyti þá fannst mér þetta nú ekki skemmtilegur leikur. Mér fannst þetta ósköp flatt hjá báðum liðum, hittnin slök og mikið um ströggl í aðgerðum," sagði Hjalti Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, hæfilega sáttur við spilamennsku lærisveina sinna í samtali við Stöð 2 Sport að leik loknum.

„Það er aftur á móti hægt að týna til ýmislegt jákvætt. Við náðum að refsa þeim fyrir að skila sér ekki nógu hratt til baka og skora auðveldar körfur í bakið á þeim. Ég var ánægður með hvernig Ólafur Ingi var að hlaupa völlinn. Við erum svo komnir með mikla breidd og djúpan bekk sem ég gat notað vel að þessu sinni," sagði þjálfarinn enn fremur. 

„Við sýndum stöðugleika í okkar spilamennsku ólíkt því sem við gerðum í Þorlákshöfn sem var ánægjulegt að sjá. Við förum ekkert upp í skýin eftir þennan sigur og það er margt sem má betur fara í næstu leikjum," segir hann um framhaldið. 

Hjalti Vilhjálmsson sá bæði ljósar og dökkar hliðar á leiknum. Vísir/Bára Dröfn

Helgi Már: Þetta var í raun bara skelfilegt

„Þetta var bara alveg skelfilegt, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við settum tóninn með því að fá á okkur fimm til sex layup í bakið af því að við vorum ekki að hlaupa aftur í vörn. Við náðum aldrei að grafa okkur upp úr þeirri holu," sagði Helgi Már Magnússon, þjálfari KR.

„Við spiluðum allt of hægt og náðum engu boltaflæði. Við ætluðum að hreyfa vörnina þeirra og þunga leikmenn þeirra. Við svo sem náðum að skapa ágætis skot en við þurfum að setja kassann út og sækja almennilega á körfuna. 

Sem dæmi finnst mér Jordan Sample geta sótt betur á körfuna en ég er alls ekki að setja þetta tap á hann, ekki misskilja mig, við þurfum bara miklu meira frá öllum okkar leikmönnum," sagði Helgi Már enn fremur. 

„Nú er ég búinn að vera í pollýönuleik í vetur og það þarf að hætta núna. Ég nenni ekki að tala um það leik eftir leik að við höfum átt ágæta kafla hér og þar í leikjum og nú verð ég ekki sáttur fyrr en við spilum heilan leik almennilega. Lið slaka ósjálfrátt á þegar þau komast 20 stigum yfir og góðir kaflar þegar við erum komnir í erfiða stöðu eru ekki nóg. Nú þurfum við að sýna alvöru batamerki og spila heila góða leiki. Það býr fullt í þessu liði og við erum með góða leikmenn, nú þurfum við bara að sýna það. 

Við ætluðum að spila góða vörn, skilja allt eftir á vellinum og framkvæma sóknarleikinn betur en við höfum gert í upphafi tímabilsins. Það fannst mér alls ekki vera uppi á teningnum og það er bara mín ábyrgð að snúa þessu við," sagði baráttuhundurinn ákveðinn um bestu leiðina til þess að moka sig upp úr þeim skafli sem Vesturbæingar eru staddir í þessa stundina. 

Það er verk að vinna hjá Helga Má Magnússyni. Vísir/Bára Dröfn

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík hafði mikla yfirburði undir körfunni, í allri baráttu og leikmenn liðsins gerðu hlutina á einfaldan og árangursríkan hátt. Hjalti Vilhjálmsson var greinilega búinn að finna veika bletti á KR-liðinu og lærisveinar hans herjuðu á þá miskunnarlaust.

Hverjir sköruðu fram úr?

Ólafur Ingi Styrmisson sýndi mikinn dugnað, var snögggur upp og niður völlinn og uppskar fyrir laun erfiðisins á báðum endum vallarins. Þegar upp var staðið var hann stigahæstur í annars jöfnu Keflavíkur liði með 15 stig. Elbert Clark Matthews var atkvæðamestur hjá KR með 25 stig og Þorvaldur Orri og Dagur Kár reyndu hvað þeir gátu. 

Hvað gekk illa?

KR-liðinu gekk, líkt og oft áður í vetur, bölvanlega að finna flæði í sóknarleiknum. Mikið um óþarfa drippl, einstaklingsframtök og líkt og áður segir var skotnýtingin heilt yfir fyrir neðan allar hellur hjá Vesturbæingum.

Kvöldverk Roberts Freimanis, Saimon Sutt og Jordan Sample var ekki upp á marga fiska en þegar upp var staðið skiluðu þeir samanlegt 15 stigum á töfluna. Freimanis lagði níu stig á vogarskálina og Sample sex. Sample reif þó niður 11 fráköst og Freimanis átta. 

Hvað gerist næst?

Keflavík fer á Hlíðarenda og mætir Val í toppslag föstudagskvöldið 2. desember en KR leiðir saman hesta sína við ÍR í rimmu liða á hinum enda töflunnar á fimmtudagskvöldið í næstu viku. 

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira