Handbolti

Noregur enn með fullt hús stiga og komið í undanúrslit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nora Mørk átti góðan leik í liði Noregs.
Nora Mørk átti góðan leik í liði Noregs. Slavko Midzor/Getty Images

Noregur vann Slóveníu í fyrri leik dagsins á Evrópumóti kvenna í handbolta. Lokatölur 26-23 og er lið Þóris Hergeirssonar enn með fullt hús stiga í milliriðli.

Leikurinn var æsispennandi en Slóvenía byrjaði leikinn betur og hafði frumkvæði framan af. Mest leiddi liðið með þremur mörkum en þegar líða fór á fyrri hálfleikinn náði Noregur tökum á leiknum og var einu marki yfir í hálfleik, 16-15.

Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri, Slóvenía var sterkari framan af en undir lok leiks tók Noregur öll völd á vellinum. Endaði Noregur leikinn á þremur mörkum í röð og vann þar af leiðandi þriggja marka sigur, lokatölur 26-23.

Henny Reistad var markahæst í liði Noregs með 10 mörk. Þar á eftir kom Nora Mørk með sex mörk.

Noregur er á toppi milliriðils I á EM með fullt hús stiga og er komið í undanúrslit þó keppni í milliriðli sé ekki lokið. Liðið mætir Danmörku á miðvikudag en Danir sitja í 2. sæti riðilsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×