Viðskipti innlent

Rit­­stjóri Húsa og hí­býla og Gest­gjafans lætur af störfum: „Margt spennandi fram­undan“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Hanna Ingibjörg hefur verið ritstjóri Húsa og Híbýla og Gestgjafans um árabil. Hún hefur nú látið af störfum.
Hanna Ingibjörg hefur verið ritstjóri Húsa og Híbýla og Gestgjafans um árabil. Hún hefur nú látið af störfum.

Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir er hætt sem ritstjóri tímaritanna Hús og Híbýla og Gestgjafans. Útgáfufélagið Birtíngur gefur út tímaritin en Hanna hefur verið ritstjóri Gestgjafans síðan árið 2016. Hún tók einnig við ritstjórn Hús og híbýla árið 2019.

„Já, það er rétt að ég hætti um þar síðustu mánaðamót,“ segir Hanna í samtali við fréttastofu. „Ég hef nú stýrt tveimur tímaritum í rúmlega þrjú ár og starfað á Gestgjafanum frá því 2005 og verið ritstjóri þar frá árinu 2016. Þetta er orðinn langur en sérlega skemmtilegur tími þar sem ég hef látið verkin tala.“

Ekki þekkt fyrir að sitja auðum höndum.

Hanna segist spennt að takast á við nýjar áskoranir og er að sögn með ýmsar hugmyndir. „Ég er ekki þekkt fyrir að sitja auðum höndum. Þegar einar dyr lokast opnast alltaf nýjar og það er margt spennandi framundan.“

Hanna Ingibjörg er spennt fyrir komandi áskorunum.Aldís Pálsdóttir

Eðlileg þróun að rekstur fyrirtækja taki breytingum

Sig­ríður Dagný Sig­ur­björns­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri Birtíngs vill ekki gefa upp hvort búið sé að ráða nýjan ritstjóra eða hvort þeir verða fleiri en einn yfir bæði Gestgjafanum og Húsum og híbýlum. Hún staðfestir þó að blöðin muni koma út á prentuðu formi eins og áður.

„Birtíngur hefur verið í stafrænni þróun í tæp tvö ár, skipulagsbreytingar eru partur af þeirri vegferð. Það er eðlileg þróun að rekstur fyrirtækja taki breytingum og er fjölmiðlarekstur ekkert frábrugðin því,“ segir Sigríður. Að hennar sögn hefur Birtíngur ekki í hug að slaka neitt á í efnisframleiðslu.

Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir framkvæmdastjóri Birtíngs segir að ekki standi til að slaka neitt á í efnisframleiðslu.Aðsend

„Hanna Ingibjörg starfaði hjá Birtíngi í fjölda ára og við þökkum henni kærlega fyrir gott starf,“ segir Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×